Fótbolti

Ótrúlegt að hún hafi fengið að klára leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson í Frakklandi skrifar
Hugað að Hólmfríði í leiknum í gær.
Hugað að Hólmfríði í leiknum í gær. Mynd/Stefán
Hólmfríður Magnúsdóttir var hættulegasti sóknarmaður íslenska liðsins í fyrri hálfleiknum og var nokkrum sinnum nálægt því að sleppa í færi. Hún var ekki heppin þar né heldur í viðskiptum sínum við franska bakvörðinn Corine Franco. Hólmfríður var fjórum sinnum studd af velli meidd. Hólmfríður er hörkutól og sýndi það með því að koma allaf aftur inn á völlinn.

"Það var farið svolítið illa með mig og það er ótrúlegt að þessi sem var að dekka mig hafi fengið að vera allan tímann inn á. Hún var sparkandi í mig eftir að ég gaf boltann, var að gefa mér olnbogaskot og það er bara ótrúlegt að hún hafi komist upp með þetta. Svo um leið og maður kom rétt aðeins við hana þá fengu þær aukaspyrnu," sagði Hólmfríður svekkt eftir leikinn. "Hún gerði flest allt við mig sem hægt er að gera í einum leik. Það er ótrúlegt að hún hafi sloppið við spjald," segir Hólmfríður sem gaf sig ekki og hélt allaf áfram þrátt fyrir slæm högg. "Ég ætlaði ekki að láta skipta mér útaf í þessum leik," sagði Hólmfríður ákveðin.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, var einnig hneykslaður á meðferðinni sem Hólmfríður fékk í leiknum."Mér fannst Hólmfríður leika mjög oft á hægri bakvörðinn hjá Frakklandi framan af leiknum. Hún tók í framhaldinu mjög hart á henni en dómarinn var ekki að draga upp spjöldin eða mikið að dæma á það. Hólmfríður fékk kjaftshögg, olgnbogaskot og það var sparkað á eftir henni. Dómarinn og línuvörðurinn sáu ekki neitt af þessu. Hún hélt haus og hélt áfram. Hún er sérstakur leikmaður sem getur skorað og búið til mörk þannig að ég hélt henni inn á," sagði Sigurður Ragnar um meðferðina á Hólmfríði.

Hólmfríður er ekkert að baki dottin þótt að þessi leikur hafi tapast. "Það munaði oft rosalega litlu en þetta tókst ekki í dag. Við erum grútsvekktar en við berum samt höfuðið hátt og erum tilbúnar í næsta leik. Það skiptir engu máli hvaða lið það verður því erum að fara að vinna þessa leiki.Við berum höfðuð hátt og eigum eftir að ná markmiðum okkar. Við förum bara aðeins lengri leið," sagði Hólmfríður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×