Enski boltinn

Giggs á skilið að slá metið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Giggs með Englandsmeistarabikarinn á lofti.
Giggs með Englandsmeistarabikarinn á lofti.

Sir Bobby Charlton segir að Ryan Giggs eigi skilið að slá met sitt yfir flesta leiki fyrir Manchester United. Giggs jafnaði met Charlton sem er 758 leikir þegar hann kom inn sem varamaður gegn Wigan í gær.

Giggs skoraði síðara mark United í 2-0 sigri sem tryggði United Englandsmeistaratitilinn. Þessi 34 ára vængmaður getur bætt met Charlton í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem verður gegn Chelsea 21. maí.

„Ef ég ætti að velja einhvern til að slá metið þá yrði hann fyrir valinu," sagði Charlton. „Hann er frábær íþróttamaður, mögnuð persóna og frábær fótboltamaður. Enginn á meira skilið að slá svona met."

„Þú þarft að vera hérna lengi til að skilja félagið og tilfinningarnar sem hér ríkja. Ferill hans með United er ótrúlegur og ég er verulega stoltur af honum. Ég hef gleymt mínu meti nú þegar," sagði Charlton.

Ferill Charlton á Old Trafford hófst í október 1956 og lauk þegar hann yfirgaf félagið 1973. Þessi sjötuga goðsögn fagnaði með Giggs og öðrum leikmönnum á JJB vellinum í gær en hann er í dag í stjórn United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×