Enski boltinn

Anderson dreymir um Inter og Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anderson, í miðju, fagnar marki með Cristiano Ronaldo og Patrice Evra.
Anderson, í miðju, fagnar marki með Cristiano Ronaldo og Patrice Evra. Nordic Photos / Getty Images

Brasilíumaðurinn Anderson, leikmaður Manchester United, hefur viðurkennt að hann dreymir um að spila fyrir Inter einn daginn og einnig að spila undir stjórn Jose Mourinho.

Anderson, sem er tvítugur, kom frá Porto til United í fyrra fyrir átján milljónir evra en svo virðist sem að hann sé þegar byrjaður að hugsa um að söðla um. Hann á fjögur ár eftir af samningi sínum við United.

„Ég er að hugsa um að spila á Ítalíu," sagði hann í samtali við Tuttosport á Ítalíu. „Ítölsk knattspyrna er sú besta í heimi og sú gáfaðasta. Allir leikmenn vilja spila á Ítalíu vegna þess að Ítalir eru meistarar knattspyrnunnar."

„Mér líkar mjög vel við Inter. Mér hefu alltaf líkað vel við liðið síðan að Ronaldo var þar. Moratti hefur alltaf náð að smíða frábær lið og Inter getur unnið hvað sem er með þá leikmenn sem eru þar."

„Ég ætla ekki að fara í felur í framtíðinni og myndi elska að spila hjá Inter undir stjórn Mourinho. Það er draumur minn að spila undir stjórn hans í framtíðinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×