Innlent

Sex mánaða fangelsi fyrir að berja og bíta sambýliskonu

Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að ganga í skrokk á fyrrverandi sambýliskonu sinni í júlí í fyrra.

Samkvæmt ákæru réðst hann með höggum og spörkum að henni, sló hana með krepptum hnefa á vinstra kinnbein, skallaði hana í andlitið, klóraði hana og beit víðs vegar í líkamann auk þess sem hann sló hana í höfuðið með glervasa þannig að vasinn brotnaði. Hlaut konan mar á höfði og á enni, bólgur í andliti og klórför, bitför og mar víða á líkamanum.

Maðurinn játaði brot sitt fyrri dómi en hann á að baki allnokkurn sakaferil sem nær tólf ár aftur í tímann. Með árásinni rauf hann skilyrði reynslulausnar vegna annars dóms. Var tekið tillit til þess og þess að árásin var hættuleg og beindist að sambýliskonu hans inni á heimili þeirra. Einnig var horft til þess að hann hefði leitað sér aðstoðar vegna vandamála sinna.

Auk fangelsisdómsins var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 225 þúsund krónur í bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×