Erlent

Ósýnd mynd veldur óeirðum meðal múslíma

Hollensk stuttmynd sem fjallar um Kóraninn hefur hleypt af stað fánabrennum og óeirðum í Afganistan. Þó hefur enginn séð myndina enn.

Músíimar þykjast nokkuð vissir um að ekki sé vel fjallað um hina helgu bók í myndinni. Höfundur hennar er enda hollenski þingmaðurinn Geert Wilders. Hann hefur sagt að myndin renni stoðum undir þær fullyrðingar hans að Kóraninn sé fasistarit.

Wilders er þekktur fyrir andúð sína á múslímum. Hann vill reka þá frá Hollandi. Hann er því í litlum metum hjá þeim 850 þúsund múslimum sem þar búa.

Mynd hans heitir Fitna, sem er arabískt orð sem er notað til þess að lýsa ósætti og aðskilnaði meðal fólks. Myndin er 15 mínútna löng. Hollensk stjórnvöld hafa áhyggjur af því að hún muni hleypa af stað álíka ólgu og varð vegna múhameðsteikninganna í Danmörku.

Jan Peter Balkende forsætisráðherra segir að stjórnvöld geti ekki bannað myndina. Hins vegar vilji þau gera lýðnum ljóst að sjónarmið Wilders endurspegli ekki sjónarmið hollensku ríkisstjórnarinnar.

Leiðtogar músíima í Hollandi virðast deila þessum áhyggjum með ríkisstjórninni. Þeir hafa hvatt íslamska bræður sína um allan heim til þess að láta þá sjálfa taka á þessu máli, innanlands í Hollandi. Um það séu þeir fullfærir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×