Fótbolti

Tékkland, Írland eða Skotland bíður íslenska kvennalandsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland fagnar marki sínu í Frakklandi um liðna helgi.
Ísland fagnar marki sínu í Frakklandi um liðna helgi. Mynd/Stefán

Síðustu leikirnir í undankeppni EM 2009 fóru fram í kvöld og er því ljóst hvaða andstæðing Ísland getur fengið í umspili um laust sæti á EM í Finnlandi á næsta ári.

Ísland lauk sinni riðlakeppni um síðustu helgi er liðið tapaði fyrir Frökkum ytra, 2-1, og varð þar með að sætta sig við annað sætið í sínum riðli.

Þau sex lið sem voru í öðru sæti sinna riðla komast áfram í umspilið auk þeirra fjögurra liða sem náðu bestum árangri í þriðja sæti sinna riðla. Og nú er ljóst hvaða tíu lið þetta eru.

Þessi tíu lið verða þó ekki dregin saman af handahófi heldur ræður árangur liðanna í riðlakeppninni.

Þau fjögur lið sem náðu bestum árangri í öðru sæti sinna liða mæta liðunum fjórum sem náðu bestum árangri í þriðja sætinu.

Hin tvö liðin sem ganga af mætast svo innbyrðist í fimmta leiknum.

Ísland er í fyrstnefnda flokkinum. Ísland er á meðal þeirra fjögurra liða sem náðu besta árangrinum í öðru sæti sinna riðla. Ísland fær þar af leiðandi veikari andstæðing í umspilinu, miðað við gengi liðanna í riðlakeppninni, en ella.

Þau fjögur lið sem náðu bestum árangri í öðru sæti sinna riðla eru Úkraína, Rússland, Ísland og Ítalía.

Þau fjögur lið sem náðu bestum árangri í þriðja sæti sinna riðla eru Tékkland, Skotland, Írland og Slóvenía.

Holland og Spánn eru liðin sem ganga af og því þegar ljóst að þau mætast í fimmta umspilsleiknum. Leikið verður heima og að heiman.

Ísland getur þó ekki mætt Slóveníu þar sem þau léku saman í riðli í undankeppninni. Ísland mun því mæta Tékklandi, Skotlandi eða Írlandi í lok mánaðarins.

Þar sem Ísland er í sterkari flokknum verður fyrri leikurinn leikinn ytra en sá síðari hér heima. Fyrri leikurinn fer fram 25. eða 26. október og sá síðari 29. eða 30. október.

Dregið verður í hádeginu á mánudaginn.

Umspilsleikirnir:

Pottur A: Úkraína, Rússland, Ísland, Ítalía.

Pottur B: Tékkland, Skotland, Írland, Slóvenía.

* Spánn og Holland mætast í fimmta leiknum.

* Ísland getur ekki dregist gegn Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×