Fótbolti

Nacho Novo til í að spila með skoska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nacho Novo í leik með Rangers.
Nacho Novo í leik með Rangers. Nordic Photos / Getty Images

Framherjinn Nacho Novo segist reiðubúinn að spila með skoska landsliðinu verði leitað eftir því en hann er fæddur á Spáni.

Novo hefur leikið í Skotlandi undanfarin átta ár, lengst af með Rangers þar sem hann er nú. Hann er ekki með breskan ríkisborgararétt en er gjaldgengur til að fá tvöfaldan ríkisborgararétt.

Manuel Almunia, markvörður Arsenal, hefur ítrekað sagst vera reiðubúinn að spila með enska landsliðinu en hann á kost á breskum ríkisborgararétti næsta sumar.

Skotland er í sama riðli og Ísland í undankeppni HM 2010 en bæði lið eru með fjögur stig í riðlinum. Skotland vann Ísland á Laugardalsvelli, 2-1.

„Ef skoska knattspyrnusambandið myndi leitast eftir því að fá mig til liðs við skoska landsliðið hefði ég mikinn áhuga á að spila með því," sagði Novo í samtali við skoska fjölmiðla.

„Eftir þann tíma sem ég hef búið í Skotlandi finnst mér að ég sé heima hjá mér. Mér hefði kannski þótt það skrýtið að klæðast skoska landsliðsbúningnum fyrir nokkrum árum en ekki í dag. Börnin mín eru skosk og hér hafa allir komið mjög vel fram við mig."

„En það er ekki undið mér komið að taka þessa ákvörðun. Það er ekki hægt að krefjast þess að spila með landsliðinu. Það þarf að bíða eftir kallinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×