Innlent

Nærri 350 tilkynningar um kynferðisbrot í fyrra

Nærri 350 tilkynningar um kynferðisbrot, þar af 90 um nauðganir, bárust lögreglunni á síðasta ári. Eru þetta 14 prósentum fleiri brot en að meðaltali árin 2002-2006. Alls voru 346 málin kærð og var um að ræða 265 einstaklinga en langstærstur hluti þeirra var karlar. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár.

Alls voru framin rúmlega 78 þúsund brot á landinu í fyrra og segir ríkislögreglustjóri að brotum fari almennt fækkandi. Þannig voru hegningarlagabrot um 13 þúsund og fækkað um þrjú prósent milli ára. Þá voru skráð tæplega 60 þúsund umferðarlagabrot og lagðar fram kærur vegna 56 þúsund þeirra. Um 74 prósent kærðra voru karlar.

Þá reyndust auðgunarbrotin nærri 6.200 í fyrr og reyndust talsvert færri á tímabilinu 2005-2007 en 2002-2004. Þjófnaðir og innbrot voru 87 prósent auðgunarbrotanna.

Enn fremur voru tvö manndráp framin í fyrra sem er sami fjöldi og að meðaltali 2002-2006. Tilkynnt var um fleiri minniháttar líkamsárásir, eða um 1200, en að meðaltali 2002-2006 en færri meiriháttar líkamsárásir, eða um 200, sé miðað við meðalfjölda yfir sama tímabil.

Þá voru um 1.850 fíkniefnabrot skráð í fyrra sem er 16 prósenta fjölgun frá árabilinu 2002-2006. Voru 1.488 brotanna  vegna „vörslu eða neyslu", sem er jafnframt þriðjungsfjölgun slíkra brota miðað við meðalfjölda á fyrrgreindu tímabili. Má rekja þessa fjölgun að einhverju leyti til aukinnar frumkvæðisvinnu lögreglu.

Eina markverða fjölgunin á haldlögðu magni fíkniefna árið 2007 frá árunum 2002-2006 var magn e-taflna en um var að ræða 14 kíló og rúmlega 26.000 stykki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×