Enski boltinn

Grétar Rafn: Ekki vanur botnbaráttu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Grétar með Matt Taylor og Jlloyd Samuel.
Grétar með Matt Taylor og Jlloyd Samuel.

Landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson hefur fengið að kynnast botnbaráttunni síðan hann gekk til liðs við Bolton. Grétar var áður að berjast á hinum endanum með hollenska liðinu AZ Alkmaar.

„Það er erfitt að vera í þessari stöðu, þetta er eitthvað sem ég þekki ekki. Samt er þetta enn fótbolti og þetta er ekkert ólíkt því að vera að stefna á bikarinn," sagði Grétar í viðtali við Sporting Life.

„Við höfum þrjá leiki til stefnu og þurfum að gera betur en hin liðin. Það er alveg eins og þegar þú ert að berjast um titilinn, maður þarf að gera betur en liðin í kring og það ætlum við okkur að gera," sagði Grétar.

Bolton reynir að bjarga sér frá falli líkt og Fulham, Reading og Birmingham en Derby er þegar fallið. Bolton hefur unnið síðustu tvo leiki og því náð að koma sér úr fallsæti í fyrsta sinn síðan í byrjun mars.

„Við vorum í fallsæti og þekkjum því þá stöðu. Við vitum hvernig hinum liðunum líður, þetta er ekki þægileg staða. Að vinna tvo leiki í röð er ekki algengt hjá okkur svo við verðum að vera bjartsýnir fyrir næstu leiki. Við verðum að halda áfram að berjast. Við þurfum ekki að horfa á önnur lið heldur bara spila okkar leik og fá réttu úrslitin."

Bolton heimsækir Tottenham á laugardag áður en liðið leikur gegn Sunderland og Chelsea í leikjum sem gætu ráðið úrslitum.

„Það er mikið í húfi og þú vilt ekki gera nein mistök. En þetta er fótbolti. Ef þú hugsar of mikið um hvað er að gerast kringum félagið eða hvað mun gerast þá truflar það þig og þú spilar ekki eins vel og þú getur. Ég hugsa ekki út í hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Grétar Rafn Steinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×