Enski boltinn

Jafnt hjá Fulham og City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bobby Zamora í baráttuni við Tal Ben-Haim.
Bobby Zamora í baráttuni við Tal Ben-Haim. Nordic Photos / Getty Images

Fulham og Manchester City gerðu í dag jafntefli í ensku úrvalsdeildinni, 1-1. Bæði mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Benjani kom City yfir strax á sjöttu mínútu leiksins en Jimmy Bullard jafnaði metin á 27. mínútu.

Roy Hodgson stillti upp sama byrjunarliði og gerði markalaust jafntefli við Aston Villa um síðustu helgi. Hins vegar voru Robinho og Micah Richards báðir fjarverandi hjá City vegna ökklameiðsla. Shaun Wright-Phillips var þó með en hann var tæpur fyrir leikinn.

Benjani skoraði mark sitt með skalla eftir sendingu Pablo Zabaleta en varnarleikur Fulham var ekki upp á marga fiska þessar fyrstu mínútur leiksins.

Bæði lið fengu ágæt færi en City var talsvert sterkara fyrstu mínúturnar. Leikmenn Fulham vildu þó fá víti áður en þeir jöfnuðu metin og höfðu talsvert til síns máls.

Það var svo Bullard sem skoraði glæsilegt jöfnunarmark. Hann fékk sendingu frá Bobby Zamora og þrumaði knettinum í fjærhornið úr erfiðri stöðu í teignum.

Fulham fékk svo tækifæri til að komast yfir er Andy Johnson lagði upp fínt færi fyrir Clint Dempsey en boltinn fór framhjá.

Þannig hélt leikurinn áfram, leikmenn fengu ágæt færi en náðu ekki að skora. Joe Hart varði aukaspyrnu Bullard vel í síðari hálfleik og þá komst Zamora einnig nálægt því að skora í nokkur skipti.

City fékk einnig sín færi undir lokin og átti Zabaleta ágætt skot sem Mark Schwarzer markvörður átti í mestum vandræðum með.

City komst upp í þrettánda sæti úr því fimmtánda með stiginu en Fulham er enn í tíunda sæti með 20 stig. City er með átján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×