Innlent

Skorar á fólk að nýta aðstoð einungis í neyð

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Pétur Blöndal alþingismaður segir að einungis þeir sem þurfi nauðsynlega á þeim aðgerðum að halda sem ríkisstjórnin kynnti á föstudag til að verja heimilin, eigi að nýta sér þær. Með aðgerðunum vill ríkisstjórnin koma til móts við skuldsett heimili og fólk sem sjái fram á verulega skertar tekjur vegna uppsagna.

„Þegar að bankarnir fara á hausinn verður mikið áfall bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Menn missa vinnuna, eignir og hlutabréf. Þetta veldur ákveðnum vanda sem þarf að brúa. Ég vona að einungis lítill hluti þjóðarinnar sé skaðaður og að þetta geti hjálpað fólki yfir þennan hjalla, hvort sem hann er eitt ár þrjú ár eða fjögur ár," segir Pétur í samtali við Vísi.

Pétur leggur áherslu á og segist vona að atvinnuleysið verði ekki varanlegt, en á meðan að það vari þurfi að hjálpa fólki að komast yfir þann hjalla. „ Ég hef líkt þessu við domino og það þarf að styðja við kubbana svo þeir hrynji ekki þó að aðrir kubbar falli."

Pétur segir að ef fólk muni nýta sér þær heimildir sem að felist í aðgerðum ríkisstjórnarinnar með því að beita greiðslujöfnunarvísitölu og lengja eða skuldbreyta lánum muni höfuðstóll lánanna flytjast aftur. Þeir sem muni halda vinnunni sinni muni ráða betur við skuldbindingar sínar með því að leggja hart að sér og spara. Hann skorar því á fólk að nýta þetta fyrirkomulag ekki nema að það þurfi virkilega á því að halda.

„Ég ráðlegg fólki, og hef reyndar gert það í mörg ár, að spara meira og greiða niður lán eins og það mögulega getur," segir Pétur. Hann bendir á að vextir séu mælikvarði á það hversu margir vilja eyða á móti þeim sem vilja spara. Þegar fólk er duglegt við að spara séu vextir lágir en þegar fólk er duglegt við að eyða séu vextir háir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×