Innlent

Farþegum fjölgar í strætó

Farþegum Strætó hefur fjölgað umtalsvert á helstu akstursleiðum og þeir nota Strætó oftar. Samkvæmt talningu sem Strætó bs. framkvæmir í október ár hvert er fjölgun farþega frá síðasta ári umtalsverð á helstu leiðum og allt upp í 35% á einstaka leiðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó. Þar segir ennfremur:

„Þegar litið er til heildarfarþegafjölda tóku alls 888.070 manns Strætó í október nú samanborið við 808.242 á sama tíma í fyrra, sem er u.þ.b. 10% aukning. Í október 2006 voru farþegarnir 711.176 og 643.458 í október 2005, sem þýðir að farþegum Strætó hefur fjölgað um rúm 38% frá 2005.

Sem dæmi um aukninguna nú má nefna að farþegum á leið 1, sem er sú strætóleið sem flestir farþegar nota daglega, hefur daglegum notendum fjölgað að meðaltali um u.þ.b. 700 milli ára, sem er 22% fjölgun. Þar með er hún fyrsta strætóleiðin sem yfir 4.000 farþegar nýta sér að meðaltali hvern virkan dag og sú fyrsta sem rýfur 100.000 farþega múrinn á einum mánuði. Á leið 6 hefur daglegum farþegum fjölgað um 550 að meðaltali á virkum dögum og á leið 4 er aukningin milli ára u.þ.b. 27%.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir fjölgun farþega í Strætó nú vera fagnaðarefni en hana megi væntanlega rekja til efnahagsástandsins og sparnaðarráðstafana heimilanna. „Við bjóðum nýja farþega velkomna og vonum að þeir muni nýta þjónustu Strætó áfram. Fjölgunin sýnir að almenningur á höfuðborgarsvæðinu er í auknum mæli farinn að nota strætó til að bregðast við erfiðum efnahagsaðstæðum og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjóða áfram sem besta þjónustu í erfiðu árferði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×