Guðjón Þórðarson hefur verið dæmdur í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.
Fram kemur á heimasíðu KSÍ að knattspyrnudeild ÍA sé enn fremur dæmd til að greiða 20 þúsund krónur í sekt vegna málsins. Hámarkssekt í máli sem þessu er 50 þúsund krónur.
Guðjón verður samkvæmt þessu í banni þegar að HK tekur á móti ÍA á sunnudaginn klukkan 14.00.
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, ákvað að skjóta ummælum Guðjóns, sem hann lét falla í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik Keflavíkur og ÍA í fjórðu umferð, til nefndarinnar.
Guðjón sagði að Ólafur Ragnarsson, dómari leiksins, hefði beitt Stefán Þórðarson leikmann ÍA ofbeldi með því að gefa honum rautt spjald í leiknum. Einnig sakaði hann dómara um að hafa fundað um hvernig ætti að taka á ÍA, þá sérstaklega Stefáni.
Vísir fjallaði ítarlega um málið í síðustu viku og má lesa þær fréttir hér að neðan. Þar má einnig finna umrætt viðtal við Guðjón sem og upptökur af atvikunum sem Stefán var áminntur fyrir í leiknum.