Lífið

Stofnar samtök um bíllausan lífsstíl

Breki Logason skrifar
Sigrún Helga Lund
Sigrún Helga Lund

Sigrún Helga Lund er stærðfræðingur og tveggja barna móðir í Vesturbæ Reykjavíkur. Annað kvöld stendur hún fyrir stofnun nýrra samtaka um bíllausan lífsstíl. Sigrún stofnaði samfélag tengdu málefninu á Facebook fyrir skömmu og hafa rúmlega þúsund manns nú þegar skráð sig. Hún segir verulega halla á þá sem kjósa sér annan samgöngumáta en bíla.

„Strætónotendur hafa til dæmis engan málsvara," segir Sigrún Helga en fólk á öllum aldri hefur nú þegar skráð sig í samtökin.

„Það er algjör misskilningur að þetta séu allt einhverjir bílahatarar því þarna eru líka áhugamenn um bíla. Þetta er bara fólk sem notar aðra samgöngumáta en bíla og hugsar aðeins út fyrir kassann."

Sigrún segir að samtökin séu með stefnuyfirlýsingu sem unnið er útfrá en einnig er verið að koma heimasíðu á laggirnar. Samtökin munu beita sér fyrir meiri metnaði yfirvalda í að leggja göngu- og hjólreiðastíga svo eitthvað sé nefnt.

Sigrún Helga á sjálf ekki bíl en þau hjónin fengu bíl gefins frá föður hennar þegar þau eignuðust seinni dóttur sína. „Síðan fannst okkur hann bara ekki kostnaðarins virði og seldum hann. Við búum stutt frá vinnustöðum okkar og getum því gengið eða hjólað í vinnuna. Síðan erum við ófeimin við að taka leigubíla og Strætó," segir Sigrún Helga og bendir á að bílleysið gangi mjög vel.

„Strætóinn er fínn fyrir okkur en hann gekk á kortersfresti héðan úr Vesturbænum síðasta vetur og við tökum hann í Bónus, það er ekkert vesen."

Grunnur verður lagður að stofnun samtakanna annað kvöld á efri hæð Sólon klukkan hálf níu. Sigrún segir alla sem hafa áhuga velkomna en samtökin eru langt frá því að vera pólitísk.

„Við ætlum að reyna að halda þessu utan stjórnmálaflokka eins mikið og við getum. Þarna er fólk úr öllum flokkum. Við nennum ekki að festast í því þrasi."

--------

Hér að neðan má sjá stefnuyfirlýsingu samtakanna

Samtök um bíllausan lífsstíl er hópur fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er

Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr útblástursmengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi.

Í hópnum er fólk sem bæði lifir bíllausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri.

Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér bíllausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum.

Hópurinn mun því berjast fyrir eftirfarandi atriðum:

• að borin sé virðing fyrir almannarými á borð við gangstéttir og torg, og að sektir fyrir ólöglega lögðum faratækjum séu sambærilegar á við það sem gerist í nágrannaborgum og að sektað sé allan tíma sólarhringsins,

• að gætt þess verði að stofnæðar trufli sem minnst nærliggjandi byggð,

• að draga úr niðurgreiðslum til handa bílandi á formi gjaldfrjálsra bílastæða við stofnanir, verslanir og fyrirtæki, óbeinnar gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og hverju því sem dregur úr samkeppnishæfni annarra valkosta við einkabílinn,

• að hvetja til þess að lagðir séu göngustígar og hjólabrautir með sambærilegum metnaði og götur fyrir bíla,

• að umferðaræðar verði skipulagðar sem breiðstræti ekki síður en hraðbrautir þar sem við á,

• að almenningssamgöngur fái sérakreinar á stofnæðum þar sem hætta er á biðraðamyndun og töfum,

• að lögð verði enn meiri áhersla á skjólmyndun með trjágróðri en nú er.

Hópurinn mun einnig kynna kosti þess að lifa bíllausum lífsstíl fyrir þá sem ekki gera það í dag, hvaða áhrif það hefur á líf þess og nærumhverfi og hvetja fólk til að breyta um lífsstíl eftir fremsta megni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.