Enski boltinn

Eriksson líst vel á Akram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nashat Akram í leik með landsliði Írak.
Nashat Akram í leik með landsliði Írak. Nordic Photos / AFP

Ekkert hefur orðið enn að því að Írakinn Nashat Akram hafi gengið formlega til liðs við Manchester City en Sven-Göran Eriksson hefur þó sagt að honum lítist vel á kappann.

Akram birti fyrr í vikunni frétt á heimasíðu sinni þar sem fram kom að hann væri búinn að semja við City og að það yrði tilkynnt á blaðamannafundi sem átti að vera haldinn í gær.

Nú hefur hins vegar sú frétt verið tekin út á heimasíðu Akram.

„Hann er mjög góður knattspyrnumaður en þarf að venjast enska stílnum. En hann er fær leikmaður og var meðal bestu manna á Asíumótinu í knattspyrnu," sagði Eriksson í samtali við heimasíðu Manchester City.

Hamd Al Amri, yfirmaður knattspyrnumála hjá Al Ain, núverandi félagi Akram, hefur hins vegar látið eftir sér að félögin hafi komist að samkomu lagi um kaup City á Akram.

„Það eina sem á eftir að gera er að útvega honum atvinnuleyfi í Englandi," sagði hann.

Eriksson staðfesti að það ætti eftir að fá vinnuleyfi fyrir Akram. „En ég held að það verði ekkert vandamál," sagði hann.

Ef Akram fer til City verður hann fyrsti Írakinn til að leika í efstu deild þar í landi og sá fyrsti í hálfa öld til að spila í stórri deild í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×