Innlent

Jón Ásgeir: Seðlabankastjóri verður að líta sér nær

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, lýsir furðu sinni á ummælum Davíðs Oddssonar í ræðu hjá Viðskiptaráði í morgun. Davíð gerði þar að umtalsefni að bankarnir hefðu lánað einum manni þúsund milljarða og vísaði þar væntanlega til Jóns Ásgeirs.

Jón Ásgeir segir ekki hægt eigna honum allar skuldir félaga sem tengjast honum. Um helmingur skuldanna séu ekki við innlenda banka og þá megi ekki gleyma því að það séu eignir sem koma á móti skuldunum.

,,Seðlabankastjóri er væntanlega að vísa til heildarskulda þriggja félaga sem ég og mín fjölskylda eigum mismunandi stóra eignarhluti í, sem eru Stoðir, Baugur og Landic Property. Þar erum við að tala um þrjú af tíu stærstu fyrirtækjum landsins og auðvitað eru þessi félög fjármögnuð að hluta til af viðskiptabönkum hér á landi, eins og öll íslensk fyrirtæki," segir Jón Ásgeir.

Jón Ásgeir segir að efnahagsreikningar félaganna liggi fyrir. Um mitt þetta ár námu samanlagðar eignir Stoða, Baugs og Landic Property um 1200 milljörðum, eigið fé var um 300 milljarðar og skuldirnar voru um 900 milljarðar. ,,Þessi félög voru því ekki meira skuldsett en gengur og gerist."

Jón Ásgeir segir að það verði einnig að hafa í huga að helmingur skuldanna er við erlenda fjármögnunaraðila enda eiga þessi félög líka miklar eignir erlendis. ,,Aðalatriðið er að samtals innlendar skuldir félaganna þriggja voru um 430 milljarðar um mitt þetta ár, sem var um 5% af heildarútlánum allra íslenskra innlánsstofnana um mitt þetta ár. Þessi félög og skuldir þeirra settu ekki íslensku bankana á hliðina, enda voru félögin öll í skilum með öll sín lán þegar það gerðist."

Davíð Oddsson verður að líta sér nær, að mati Jóns Ásgeirs.

,,Seðlabankastjóri verður að líta nær sér ef hann vill finna ástæður fyrir hruni íslensks efnahagslífs."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×