Erlent

Berluconi segir Obama vera sólbrúnan

Silvio á góðri stundu með fráfarandi forseta.
Silvio á góðri stundu með fráfarandi forseta.

Forsætisráðherra Ítalíu er enn einusinni í súpunni vegna óviðeigandi ummæla. Hann lýsti Barack Obama sem sólbrúnum. Silvio Berlusconi var að tala við blaðamenn að loknum fundi með Dmitry Medevedev forseta Rússlands. Hann var meðal annars spurður um útlitið í samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna eftir að Barack Obama var kjörinn forseti.

Sambúð þessara tveggja landa hefur versnað til muna síðustu misserin. Berlusconi svaraði því til að ungur aldur forsetanna ætti að auðvelda þeim að tala saman. Medvedev er 43 ára og Obama 47.

Svo brosti Berlusconi og sagði; Ég sagði Rússneska forsetanum að Obama hefði allt til þess að bera að hægt væri að ná samkomulagi við hann. Hann væri ungur, myndarlegur og jafnvel sólbrúnn. Þetta var hent á lofti sem óviðeigandi ummæli um fyrsta svarta forseta Bandaríkjanna. Berlusconi varði sig hinsvegar með því að segja að hann hefði aðeins ætlað að hrósa Obama.

Berlusconi sem sjálfur er 72 ára gamall er þekktur fyrir allt annað en pólitíska rétthugsun. Eitt sinn líkti hann þýskum þingmanni við vörð í útrýmingarbúðum Nazista. Eftir ellefta september árið 2001 sagði hann að vestræn menning væri hafin yfir islam og nýlega sagði hann svo að það væri of margar konur í ríkisstjórn Spánar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×