Innlent

Leggja til ítarlegar hugmyndir til atvinnuuppbyggingar

Jón Steindór Valdimarsson er framkvæmdastjóri SI.
Jón Steindór Valdimarsson er framkvæmdastjóri SI. MYND/Hari

Samtök iðnaðarins leggja til gjaldeyrissparnað með því að velja íslenskt, breytingar á skattamálum, auknar framkvæmdir og meiri nýsköpun ásamt sókn í menntamálum til þess að byggja aftur upp atvinnu- og efnahagslíf landsins. Samtökin unnu skýrslu um málið sem lögð var fyrir vinnuhóp á vegum ríkisstjórnarinanr sem vinnur að atvinnusköpun.

Samtök iðnaðarins segja ljóst í þeim erfiðleikum sem fram undan séu að leita þurfi allra leiða til að auka útflutninstekjur, draga úr útgjöldum erlendis og koma í veg fyrir að atvinnuleysi festist í sessi og fólk flýi land. Því leggja samtökin fram hugmyndir til þess að stuðla að þessu.

Samtök iðnaðarins segja miklu máli skipta að velja íslenska vöru og þjónustu því þannig megi spara milljara í gjaldeyri og fjölga störfum í íslenskum iðnaði. Taka þau sem dæmi að innlendir bjórframleiðendur geti vel annað eftirspurn og þá segja þau kaffibrennslur landsins sömuleiðis geta það. Sama eigi við um íslenskar hreinlætisvörur, húsgögn, innréttingar, bækur, föt og byggingarefni.

Íslensk fyrirtæki flytji starfsemi heim

Þá vilja Samtök atvinnulífsins skoða hvort íslensk fyrirtæki með framleiðslu í útlöndum geti flutt starfsemi hingað til lands og þannig skapað störf, til að mynda Össur, Marel og Actavis. Til þess að það sé hægt þurfi starfsskilyrðin hér að vera jafngóð eða betri en annars staðar. Þá vilja samtök ýmsar breytingar á skattalöggjöf og að lög verði sett strax sem heimili fyrirtækjum sem eru t.d. með a.m.k 85 prósent rekstrartekna ársins 2008 í erlendri mynt að færa ársreikning sinn frá og með þessu ári í erlendan gjaldmiðil. Stór hluti eigin fjár útflutningsfyrirtækja hverfi ef fyrirtækin geri upp í íslenskum krónum í ár.

Íslendingar ferðist innanlands

Þá segja samtökin nýsköpun aldrei mikilvægari en nú og vilja að sjóðurinn Frumtak verði að veruleika ásamt því að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fái aukið svigrúm. Enn fremur þurfi að ráðast í mannaflsfrekar framkvæmdir á vegum hins opinbera og íhuga vel að auka fiskikvóta.

Enn fremur megi ná fram miklum gjaldeyrissparnaði með því að draga úr ferðalögum Íslendinga til útlanda og ferðast fremur um Ísland. Þá sé hægt að selja læknisaðgerðir til útlendinga og leggja aukna áherslu á heilsutengda ferðaþjónustu. Enn fremur sé brýnt að gera raungreinum, starfsmenntun, iðnmenntun, tæknimenntun og verkfræðimenntun, auk sölu- og markaðsfræðum hærra undir höfði. „Tómt mál er að tala um hátækni- og nýsköpunarsamfélag hér á landi ef ekki er gripið til markvissra aðgerða á þessu sviði," segir í skýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×