Erlent

Neyðarfundur hjá ríkisstjórn Hollands vegna umdeildrar Kóranmyndar

Geert Wilders er höfundur myndarinnar Fitna.
Geert Wilders er höfundur myndarinnar Fitna. MYND/AP

Óttast er að reiðialda rísi í ríkjum múslíma á næstunni í kjölfar frétta af því að umdeild mynd hollensks stjórnmálamanns um Kóraninn var sett inn á Netið í gær.

Ríkisstjórn Hollands var kölluð saman til neyðarfundar og dagskrá í hollensku sjónvarpi var breytt eftir greint var frá því að umdeild kvikmynd hollenska stjórnmálamannsins Geert Wilders, sem nefnist Fitna, hefði verið sett á Netið í gær. Þar er Kóraninn, hið helga rit múslíma, gagnrýnt harkalega og múslímar hvattir til þess að rífa ákveðna kafla úr bókinni.

Enn fremur eru sýndar myndir af hryðjverkaárásunum í New York 11. september og á Spáni í mars 2003 og þær settar í samhengi við texta í Kóraninum. Þá er varað við vaxandi fjölda múslíma í Hollandi og Evrópu alllri. Þá er í myndinni að finna skopmynd danska teiknarans Kurts Westergaards af Múhameð spámanni en Westergaard segir við danska fjölmiðla að hún sé notuð í leyfisleysi.

Wilders hafði ítrekað frestað því að sýna myndina enda ljóst að hún yrði mjög umdeild. Jan Peter Balkenende forsætisráðherra sagðist vona að myndin myndi ekki kalla á mótmæli í löndum múslíma en engu að síður er óttast að svipuð reiðialda gangi yfir og þegar skopmyndir af spámanninum Múhameð birtust í dönskum miðlum fyrir um tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×