Fótbolti

Þýskaland í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjóðverjar fagna fyrsta marki sínu í kvöld.
Þjóðverjar fagna fyrsta marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Heims- og Evrópumeistarar Þýskalands tryggðu sér í dag þátttökurétt í undanúrslitum á HM kvenna í Kína.

Þýskaland vann Norður-Kóreu í fjórðungsúrslitum, 3-0. Kerstin Garefrekes skoraði fyrsta mark leiksins á 44. mínútu og Renate Lingor bætti því öðru við á 68. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar innsiglaði Annike Krahn sigurinn með þriðja marki Þjóðverja.

Þýskaland mætir annað hvort Noregi eða Kína í undanúrslitum en þessi lið mætast í fjórðungsúrslitum á morgun.

Klukkan 12 á hádegi að íslenskum tíma er síðari leikur dagsins á HM. Þá eigast við Bandaríkin og England um sæti í undanúrslitum keppninnar.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Eurosport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×