Innlent

Vindasamt á gamlárskvöld

Það verður vindasamt á morgun, eftir því sem fram kemur í veðurkortunum hjá Sigurði Ragnarssyni.
Það verður vindasamt á morgun, eftir því sem fram kemur í veðurkortunum hjá Sigurði Ragnarssyni.

„Þetta hefur verið vindasamt í kortunum síðustu daga og verður vindasamt," segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur hjá 365, um áramótaveðrið.

„Vindurinn dúrar heldur um miðjan dag á morgun en fer vaxandi á ný annað kvöld og þá einkum allra vestast á landinu," segir Sigurður. „Um miðnætti verða sunnan og suðaustan 13-20 m/s á landinu sunnan- og vestanverðu hvassast á annesjum allra vestast og síðan á miðhálendinu. Austan til á Norðurlandi og síðan á Austurlandi verða 8-15 m/s, semsagt heldur hægari vindur. Á suðurhelmingi landsins verður rigning fremur en slydda og nær sú úrkoma eitthvað norður með vesturlandinu. Skúrir eða él verða á Vestfjörðum og norðvestan til á landinu en síðan léttir heldur til á Norðausturlandi er dregur að miðnætti. Skýjað og úrkomulítið verður á Austurlandi," segir Sigurður og bætir við að hitinn um miðnætti verði víðast 2-8 stig enda hlýnar þegar líður á annað kvöld.

Sigurður segist enn þeirrar skoðunar að besta skoteldaveðrið verði á Norðausturlandi. „Allavega verður vindurinn þar einna hægastur, enda þótt hann muni blása og þar verður þokkalega bjartur himinn," segir Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×