Enski boltinn

Nú var brotist inn hjá Gerrard

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brotist var inn á heimili Gerrard í gær.
Brotist var inn á heimili Gerrard í gær. Nordic Photos / Getty Images

Í gær var brotist inn á heimili Steven Gerrard en þetta er í sjöunda skiptið á skömmum tíma sem brotist er inn á heimili leikmanns Liverpool.

Í öll þessi skipti hefur verið brotist inn á heimili leikmanna er þeir eru fjarri heimilis síns vegna þátttöku þeirra í útileik með Liverpool.

En nú var ekki komið að tómu húsi þar sem eiginkona Gerrard, Alex Curran, var stödd á heimili þeirra þegar brotist var inn.

Lögreglan vildi ekki staðfesta að um heimili Gerrard væri að ræða en sagði þó að hún hefði verið kölluð til eftir að kona hringdi til að tilkynna að fjórir innbrotsþjófar hefðu stolið skartgripum af heimili hennar.

Curran var vitanlega brugðið við þetta en hlaut þó ekki skaða af.

Fyrr á árinu var brotist inn á heimili Pepe Reina markvarðar er Liverpool tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Á síðasta ári var svo brotist inn á heimili Jerzy Dudek, Daniel Agger, Peter Crouch og Florent Sinama-Pongolle.

Þá varð Dirk Kuyt einnig fyrir barðinu á innbrotsþjófum í síðasta mánuði er hann var fjarverandi með hollenska landsliðinu.

Einnig hefur verið brotist inn á heimili Andy van der Meyde, leikmanns Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×