Enski boltinn

Benitez öruggur um starfið sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, stjóri Liverpool.
Rafael Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, segir að hann óttist ekki að starfið sitt sé í hættu en liðið mætir Manchester United um helgina.

Af því tilefni munu eigendur liðsins, Bandaríkjamennirnir George Gillett og Tom Hicks, koma til Bretlands og funda með Benitez.

Stjórinn spænski hefur opinberlega gagnrýnt eigendur Liverpool vegna stefnu þeirra í leikmannakaupum.

„Ég hef alltað verið handviss um að ég verði áfram knattspyrnustjóri Liverpool," sagði Benitez. „Stuðningsmennirnir og leikmennirnir eru ánægðir og er það aðalatriðið."

Liverpool vann í gær góðan sigur á Marseille á útivelli, 4-0, í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kæmist áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Á sunnudag mætir liðið svo Manchester United í mikilvægum leik í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar. United er sex stigum á undan Liverpool í deildinni og því mikilvægt fyrir Liverpool að missa liðið ekki of langt frá sér.

Þar sem Liverpool lenti í öðru sæti síns riðils í Meistaradeildinni er ljóst að það muni mæta spænsku eða ítölsku liði í 16-liða úrslitunum. Um er að ræða AC Milan, Inter, Real Madrd, Barcelona eða jafnvel Sevilla.

Benitez sagði þó að það skipti ekki máli hver næsti andstæðingur liðsins væri í keppninni.

„Þetta eru allt góð lið en við njótum þess að spila knattspyrnu þessa stundina. Liðið hefur bætt sig í hverri viku og er ég ánægður með bæði sóknar- og varnarleik okkar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×