Enski boltinn

Bale frá í þrjá mánuði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gareth Bale verður frá næstu þrjá mánuðina.
Gareth Bale verður frá næstu þrjá mánuðina. Nordic Photos / Getty Images

Gareth Bale verður frá keppni næstu þrjá mánuði eftir að hann meiddist á hægri fæti í leik Tottenham og Birmingham.

Þetta er mikið áfall fyrir Tottenham en þessi átján ára stráklingur frá Wales hefur staðið sig einkar vel á tímabilinu. Hann þurfti að fara meiddur af velli í leiknum sem fór fram þann 2. desember eftir að hann var tæklaður af Fabrice Muamba.

„Gareth mun fara í skoðun þar sem hann verður svæfður svo hægt sé að meta skaðann,“ sagði Damien Comolli, yfirmaður íþróttamála hjá Tottenham. „Sú ákvörðun hefur verið tekin að flýta ekki um of endurhæfingu hans.“

Hann sagði enn fremur að Bale væri vitanlega sársvekktur vegna þessa en með þessum aðgerðum sé verið að hugsa til framtíðar enda sé Bale ungur.

Bale hefur verið með betri leikmönnum Tottenham á tímabilinu og leikið bæði á miðjunni sem og í stöðu vinstri bakvarðar.

Hann var keyptur frá Southampton í sumar fyrir tíu milljónir punda en í fyrra varð hann yngsti landsliðsmaður Wales frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×