Innlent

Fólskuleg árás á unglinga úr Borgarnesi

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Unglingar úr vinnuskóla Borgarness urðu fyrir fólskulegri árás unglingagengis við tívolíið í Kópavogi í dag. Lögregla skarst í leikinn á fjölda lögreglubíla og handtók fjóra ólögráða unglingspilta fyrir brot á lögum og lögreglusamþykktum.

Að sögn sjónarvotta réðust drengirnir sem eru á aldrinum 14 til 16 ára, í fyrstu á einn piltanna úr Borgarnesi sem var í skemmtiferð í höfuðborginni ásamt vinnufélögum sínum. Var hann kýldur með fólskulegum hætti í andlit, höfuð og maga. Eftir að drengurinn flúði inn í rútu sem Borgnesingarnir höfðu til umráða, reyndu árásarpiltarnir að ráðast inn í langferðabílinn á eftir honum og létu dólgslega að sögn sjónarvotta.

Bílstjórinn varð þá fyrir tilefnislausri árás en til þess notaði einn árásarpiltanna kústskaft en með því gerðist hann brotlegur við vopnalög að sögn lögreglu.

Að sögn lögreglu létu drengirnir ófriðlega er lögregla kom á staðinn og hlýddu ekki fyrirmælum hennar og geta átt yfir höfði sér kæru sökum þess.

Einn drengjanna reyndi auk þess að villa um fyrir lögreglunni og sagði ósatt um kennitölu svo að ekki væri unnt að bera kennsl á hann.

Allir drengirnir voru handsamaðir og færðir á lögreglustöð í Kópavogi til yfirheyrslna og voru þeir sóttir þangað af forráðamönnum. Barnaverndarnefnd fær tilkynningu um þetta mál og fær það til athugunar en lögregla telur það mjög alvarlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×