Enski boltinn

Zola langar að taka við Chelsea

NordicPhotos/GettyImages

Hinn smái en knái Gianfranco Zola segir að sig langi mikið að gerast knattspyrnustjóri Chelsea einn daginn, en hann átti glæsilegan sjö ára feril með liðinu sem leikmaður á síðasta áratug. Zola er sem stendur aðstoðarmaður Pierluigi Casiraghi hjá U-21 árs liði Ítala.

"Það væri frábært að taka við Chelsea einn daginn en ég vil fyrst reyna að læra eins mikið og ég get fyrst. Ég veit ekki hvort það yrði þá sem knattspyrnustjóri eða þjálfari, en ég verð að klára að fá réttindin mín áður en ég get farið að hugsa um það," sagði Zola sem er harður stuðningsmaður Jose Mourinho.

"Jose kom til Chelsea og sagðist vera besti stjórinn í bransanum frá fyrsta degi. Það tók alla pressuna af leikmönnum liðsins en setti um leið gríðarlega pressu á hann sjálfan til að vinna titla. Hann elskar þessa pressu," sagði hinn fertugi Zola. Hann blæs á þá sem segja að Chelsea spili ekki fallega knattspyrnu.

"Ég spilaði með Chelsea undir Ruud Gullit og þá sagði fólk að við spiluðum skemmtilegasta boltann. Við unnum hinsvegar ekki neitt en nú er Chelsea að vinna titla en fólk finnur alltaf eitthvað sem því finnst ekki nógu gott. Ég held að það skipti ekki máli svo fremi sem liðið vinnur," sagði Zola, sem var kjörinn leikmaður ársins á Englandi árið 1997.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×