Innlent

Mannekla og ófullnægjandi húsakostur hamlar starfsemi Landspítalans

MYND/GVA

Mannekla og og ófullnægjandi húsakostur hefur hamlað starfsemi Landspítalans háskólasjúkrahúss að sögn Birnu Kr. Svavarsdóttur, formanns stjórnarnefndar Landspítalans háskólasjúkrahúss. Þetta kom fram í ræðu hennar á ársfundi spítalans sem haldinn er í dag. Hún segir nauðsynlegt í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu að skoða fleiri möguleika við fjármögnun og framkvæmd.

Í ræðu sinni sagði Birna aðstæður á spítalanum oft erfiðar og til dæmis gengi afar illa að manna í sérhæfð störf. Skortur sé á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og oft ekki hægt að halda úti fullri starfsemi á deildum spítalans vegna manneklu. Þá spilar þensla og launasamkeppni á vinnumarkaði inn í og gerir spítalanum erfitt að ná í starfsfólk

Birna sagði ennfremur í ræðu sinni að skortur á starfsfólki hefði neikvæð áhrif á starfsandann og auki vinnuálag. Þar að auki sé húsakostur ekki lengur í samræmi við kröfur nútímans. Hvetur hún landsmenn til að standa vörð um byggingu nýs spítala, starfseminni til hagsbóta og landsmönnum til heilla.

Birna bendir á í ræðu sinni að á Íslandi sé fyrir hendi öflugt heilbrigðiskerfi sem byggir á samfélagslegri ábyrgð þar sem heilbrigðisþjónusta er túlkuð sem mannréttindi og ráðist ekki af efnahag eða öðrum aðstæðum.

Hún segir Íslendinga standa frammi fyrir breyttum aðstæðum í samfélaginu. Aukin eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hafi haft það í för með sér að álagið hafi aukist og þar með kostnaður. Þar af leiðandi sé það nauðsynlegt að skoða þá möguleika sem bjóðast við fjármögnun og framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×