Innlent

Hljóti að koma til greina að hækka eftirlaunaaldur

Samtök atvinnulífsins telja það brýnt að afnema allar hindranir fyrir atvinnuþátttöku eldri starfsmanna og að það hljóti að koma til greina að hækka eftirlaunaaldur þar sem fólk á aldrinum 65-70 ára búi við mun betri heilsu en áður.

Á vef samtakanna er bent á að sú þróun muni halda áfram og vísað í nýtt rit samtakanna um Ísland árið 2050. Þar er meðal annars að finna mannfjöldaspá sem gerir ráð fyrir að Íslendingar verði 400 þúsund árið 2050. Þá verði aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar mjög frábrugðin því sem nú er og fólk á eftirlaunaaldri, 65 ára og eldri, rúmlega fjórðungur þjóðarinnar í stað 12 prósenta nú.

Enn fremur fimmfaldist fjöldi Íslendinga 80 ára og eldri fram til 2050, úr níu þúsund í 45 þúsund. Þá er gert ráð fyrir því að árið 2050 verði ævilíkur karla við fæðingu 86,5 ár og kvenna tæp 90 ár og lenging meðalævi frá því sem nú er verði þannig 7,5 ár hjá körlum og 7 ár hjá konum.

Þá muni það tímabil sem fólk njóti lífeyris lengjast um tæp 30 prósent fram til ársins 2050. Hins vegar muni Íslendingum á vinnumarkaði fjölga tiltölulega hægt á komandi árum og mun fjölgunin stöðvast eftir u.þ.b. tvo áratugi. Því verði vinnuframlag erlends starfsfólks ein meginforsenda hagvaxtar.

Hægur vöxtur vinnuafls kalli ekki aðeins á lengri starfsævi heldur þurfi einnig að fá yngra fólk fyrr inn á vinnumarkaðinn og hafi Samtök atvinnulífsins því lagt til að nemendur hefji nám einu ári fyrr í framhaldsskóla og tveimur árum fyrr á háskólastigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×