Tónleikaröð Reykjavík Grapevine, Take me down to Reykjavík City, heldur áfram í dag. Tónleikarnir fara fram í garðinum á Sirkus við Klapparstíg og verða í tvennu lagi að þessu sinni.
Fyrri tónleikarnir eru frá klukkan 16 til 18 og þá spila hljómsveitirnar Retro Stefson og Rafhans. Sirkusmarkaðurinn verður í fullum gangi þannig að fólk getur slegið tvær flugur í einu höggi, keypt sér eitthvað fallegt og hlustað á hressandi tónlist á meðan.
Í síðara hollinu sem stendur frá 21 til 23.30 spila svo hljómsveitirnar Reykjavík! og Ultra Mega Technobandið Stefán. Þá væri tilvalið að dansa trylltan dans í tilefni sumarsins, sólarinnar og bara af hvaða öðru tilefni sem er. Frítt er á tónleikana.