Enski boltinn

Liverpool vill ráða heimagæslu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard varð fyrir barðinu á innbrotsþjófum.
Steven Gerrard varð fyrir barðinu á innbrotsþjófum. Nordic Photos / Getty Images

Liverpool er nú að íhuga að ráða öryggisfyrirtæki til að gæta heimili leikmanna liðsins þegar þeir eru fjarri heimilum sínum vegna útileikja Liverpool.

Fyrirliði liðsins, Steven Gerrard, varð í vikunni sjötti leikmaður liðsins sem verður fyrir barðinu á innbrotsþjófum á skömmum tíma. Á sama tíma og brotist var inn á heimili hans var hann að spila með Liverpool gegn Marseille í Frakklandi.

Eiginkona hans, Alex Curran, var að vísu stödd á heimili hjónanna en hlaut engan skaða af.

Auk sexmenninganna var brotist inn á heimili Dirk Kuyt í Liverpool þegar hann var fjarverandi með hollenska landsliðinu.

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, hefur verið spurður um málið og segir hann að það sé í skoðun hjá félaginu.

„Við höfum rætt við öryggisfyrirtæki og erum að reyna að finna lausn á þessu," sagði Benitez. „Við höfum einnig rætt við lögregluna því þetta er allt saman mjög furðulegt. "

Lögreglan hefur greint frá því að innbrotsþjófarnir á heimili Gerrard náðu að ræna Rolex-úri Curran og tveimur bíllyklum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×