Erlent

Vilja starfsmenn Blackwater fyrir dóm

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, vill að Blackwater-menn verði dregnir til ábrygðar vegna morðanna í síðasta mánuði.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, vill að Blackwater-menn verði dregnir til ábrygðar vegna morðanna í síðasta mánuði. MYND/AP

Írösk stjórnvöld hafa krafist þess að vopnaðir starfsmenn verktakafyrirtækisins Blackwater verði dregnir fyrir dóm vegna morða á sautján almennum borgurum í Bagdad í síðasta mánuði. Opinber rannsókn sýni að þeir hafi ekki verið að svara árás þegar þeir hafi skotið á fólkið.

Tuttugu og þrír særðust í skotárásinni þann sextánda síðasta mánaðar. Í fyrstu var sagt að ellefu hefðu týnt lífi en nú hefur rannsókn íraskra yfirvalda leitt í ljós að sex til viðbótar hefðu fallið fyrir byssukúlum Blackwater-manna. Fyrirtækið er með margar milljóna dala samninga við bandarísk stjórnvöld og falið að gæta sendifúlltrúa og háttsettra erlendra gesta í Írak.

Ný skýrsla þingnefndar hefur gagnrýnt starfsemi og rekstur Blackwater, sem og annarra verktakafyrirtækja í Írak, en vopnaðir starfsmenn þeirra eru sagðir vel á annað hundrað þúsund í landinu. Þeir hafa tekið að sér ýmis verk sem áður voru á könnu hermanna.

Rannsókn íraskra yfirvalda er einnig sögð sýna að ekki hafi verið skotið á liðsmenn Blackwater áður ein þeir hafi hleypt af - en þeir hafa fullyrt að skothríð þeirra hafi verið svar við árás.

Það var Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sem skipaði nefndina sem nú hefur skilað niðurstöðu sinni. Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur falið bandarísku alríkislögreglunni, FBI, að rannsaka atburðinn.

Írakar eru æfir og vilja að Blackwater-menn verði sóttir til saka. Írösk stjórnvöld krefjast þess nú líka og munu lög hafa verið undirbúin sem færa verktaka í Írak undir þarlend lög. Vopnaðir verðir sem ráðnir hafa verið af bandarískum yfirvöldum í Írak njóta friðhelgi og er ekki hægt að lögsækja þá samkvæmt samkomulagi sem Írakar og Bandaríkjamenn gerðu með sér árið 2003. Þessu vilja írösk yfirvöld nú breyta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×