Innlent

Tekinn með 23.000 e-töflur í Leifsstöð

Þýskur karlmaður var gripinn glóðvolgur í Leifsstöð með 23 þúsund e-töflur.
Þýskur karlmaður var gripinn glóðvolgur í Leifsstöð með 23 þúsund e-töflur.

Þýskur karlmaður á sextugsaldri var handtekinn á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 22. desember síðastliðins með rúmlega 23.000 e-töflur í fórum sínum. Það er næstmesta magn e-taflna sem hald hefur verið lagt á hérlendis, og það mesta sem ætlað hefur verið á markað hér. Talið er að götuvirði efnanna sé um og yfir sextíu milljónir króna.

Maðurinn kom til landsins frá Hamborg eftir millilendingu í Kaupmannahöfn. Efnin fundust við hefðbundið eftirlit tollgæslunnar á Suðurnesjum. Á Þorláksmessu var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. janúar.

Talið er öruggt að fleiri tengist málinu, þar á meðal Íslendingar. Lögreglan á Suðurnesjum, sem annast rannsókn málsins, verst allra frekari frétta af málinu.

Lögregla telur efnið hafa verið ætlað til sölu á Íslandi og hefur þá aldrei áður verið lagt hald á jafnmikið af e-töflum hér sem fluttar eru til landsins í því skyni. Árið 2001 var Austurríkismaðurinn Kurt Fellner handtekinn við komuna frá Hollandi með 67.000 e-töflur í fórum sínum. Hann var hins vegar á leið til Bandaríkjanna með efnið og hugðist aðeins millilenda hér. Maðurinn fékk tólf ára fangelsisdóm í héraðsdómi en Hæstiréttur mildaði dóminn í níu ár.

Fyrr á árinu fundust 1.800 e-töflur og fjórtán kíló af e-töfludufti auk 24 kílóa af amfetamíni um borð í skútu í Fáskrúðsfjarðar­höfn. Úr duftinu er talið að hægt hefði verið að framleiða um 140 þúsund e-töflur.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×