Innlent

Heyrnarlausar og þroskaheftar konur misnotaðar

Tvær ungar konur sem báðar eru heyrnarlausar og þroskaheftar urðu fyrir grófri kynferðislegri misnotkun á síðasta ári. Sleginn hefur verið þagnarmúr um málið, en það er á vitorði stjórnar og forsvarsmanna Félags heyrnarlausra, Félagsþjónustunnar í Kópavogi og fleira fólks sem kemur að málefnum heyrnarlausra með einum eða öðrum hætti.

Misnotkunin átti sér stað á menningarhátíð heyrnarlausra á Akureyri 10. til 16. júlí í fyrra sem ungu konurnar sóttu.

Annarri var útvegaður svokallaður liðsmaður, sem átti að vera skjólstæðingi sínum til aðstoðar á mótinu. Maðurinn, sem er heyrnarskertur, braut þar á ungu konunni, svo og annarri heyrnarlausri og þroskaheftri konu, með kynferðislegri misnotkun.

Félagsþjónustan í Kópavogi útvegaði konunni liðsmanninn, samkvæmt ábendingu frá Félagi heyrnarlausra. Viðkomandi starfsmönnum félagsþjónustunnar var gert viðvart um misnotkunina. Önnur konan hefur verið í ráðgjafarviðtölum eftir atburðinn.

Annað atvik varð svo í september þegar heyrnarlaus maður hélt upp á afmæli sitt. Í veislunni var hópur heyrnarlausra karlmanna, sem og ungu konurnar tvær. Þar var klámefni sýnt og mennirnir höfðu uppi kynferðislegt athæfi gagnvart konunum.

Fréttablaðið hafði samband við Berglindi Stefánsdóttur, fyrrverandi formann Félags heyrnarlausra, sem haldið hefur utan um rannsókn á kynferðisbrotum gegn heyrnarlausum. Hún kveður málin hafa komið inn á sitt borð og staðfestir að hún hafi hitt annað hinna meintu fórnarlamba, sem staðfest hafi þau. Hún kveðst hafa vísað þessum málum áfram til þeirra sem eigi að hafa með þau að gera. Þau hafa ekki verið kærð til lögreglu.

Haukur Vilhjálmsson, stjórnarmaður og starfsmaður Félags heyrnarlausra, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði eftir því. Formaður og framkvæmdastjóri félagsins eru í útlöndum. Ekki náðist í félagsmálastjóra Kópavogsbæjar.

Konurnar munu báðar hafa verið mjög miður sín eftir þessa atburði, að því er Fréttablaðinu hefur verið tjáð, og glíma við andlega erfiðleika vegna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×