Innlent

Blæddi líklega af völdum sjúkdóms

Ólafur Helgi Kjartansson
„Að svo komnu máli er ekkert fullyrt, ekkert útilokað og allt rannsakað,“ segir sýslumaðurinn á Selfossi.
Ólafur Helgi Kjartansson „Að svo komnu máli er ekkert fullyrt, ekkert útilokað og allt rannsakað,“ segir sýslumaðurinn á Selfossi. MYND/Hari

Líklegt mun vera talið að sjúkdómur sé orsök blæðingar mannsins sem lést á föstudagskvöld eftir að hann fannst meðvitundarlaus í heimahúsi í Hveragerði.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, vill ekki staðfesta þetta. Hann segir þó að ekkert bendi til þess að átök hafi átt sér stað en að ekki sé hægt að fullyrða eitt eða neitt. Engir auðsjáanlegir áverkar munu hafa verið á manninum.

„Við vitum ekki hvað gerðist og dánarorsökin er ókunn en við bíðum eftir niðurstöðu krufningar. Embættið mun óska eftir því að henni verði hraðað. Við eigum líka eftir að sjá allar niðurstöður úr tæknirannsókninni. Að svo komnu máli er ekkert fullyrt, ekkert útilokað og allt rannsakað," segir sýslumaðurinn.

 

Engin átök eru talin hafa átt sér stað áður en 52 ára gamall maður fannst meðvitundarlaus á föstudag í þessu húsi í Hveragerði.mynd/einar

Það var laust eftir klukkan fimm síðdegis á föstudag að lögreglunni á Selfossi barst tilkynning um að maður lægi meðvitundarlaus í blóði sínu í húsi við Kambahraun í Hveragerði. Það var gestkomandi kunningi sem fann manninn.

Maðurinn var þegar fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Lífgunartilraunir á sjúkrahúsinu báru ekki árangur og maðurinn var lýstur látinn um kvöldmatarleytið. Hann var 52 ára gamall.

Er að var komið svaf húsráðandinn, kona um fimmtugt, ölvunarsvefni í húsinu. Konan var flutt á lögreglustöðina á Selfossi þar sem hún var of drukkin til að gefa skýrslu. Hún var síðan frjáls ferða sinna eftir að tekin var af henni skýrsla í gærmorgun. Einnig voru teknar skýrslur af öðrum sem höfðu upplýsingar um málið.

Sérfræðingar úr tækndeild lögreglunnar í Reykjavík fóru austur til að aðstoða við athuganir á vettvangi sem var lokað af í þágu rannsóknarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×