Lífið

Hanna Björk talar frá Teheran: Ananasgos, bananatyggjó og ís

Hanna Björk Valsdóttir skrifar
Rani er íranskur ananasgosdrykkur með ananasbitum.
Rani er íranskur ananasgosdrykkur með ananasbitum.
Þegar maður dvelur í útlöndum í lengri tíma þá fer maður alltaf að sakna fáránlegra hluta frá Íslandi eins og til dæmis SS-pylsna og ópals. En mér finnst reyndar ennþá skemmtilegra að vera í útlöndum og smakka mat sem mér finnst skrítinn.

Í Íran er mikil matarmenning og ég hef verið mjög dugleg við að smakka allan mat sem mér er boðinn og yfirleitt er hann mjög góður, þótt Íranar séu óþarflega mikið fyrir að hafa súrsað grænmeti sem meðlæti.

Kebab er aðalmálið og núna hef ég prófað trilljón útfærslur af þessum þjóðarrétti. Kebab er líka alltaf borið fram með miklu magni af saffran-hrísgrjónum sem eru mjög svo góð. Og jógúrt, hér er skylda að borða hreina jógúrt með öllum mat.

En í dag fann ég skemmtilega skrítinn drykk. Rani, sem er íranskur ananasgosdrykkur með ananasbitum. Það var skemmtilega hressandi.

Bananatyggjó er líka mjög vinsælt hérna og aðaltyggjóbragðið. Mér finnst alltaf mjög fyndið að fá bananatyggjó. Íranar eru líka mikið fyrir ís og ísbúðir eru á hverju götuhorni. Grænn og bleikur ís í brauðformi með óskilgreindu bragði er langvinsælastur hér og það er ekki hægt að labba úti á götu án þess að mæta einhverjum með þannig ís.

Þannig finnst mér það skemmtilegasta við það að vera í nýrri borg, sem er svo gjörsamlega frábrugðin öllu sem ég hef kynnst, að ganga um göturnar og upplifa allt sem er nýtt og öðruvísi en ég á að venjast. Sem er reyndar allt í Teheran, ekkert er venjulegt hér.

Hanna Björk Valsdóttir.
Það er líka ýmislegt annað sem er frábrugðið í menningunni. Hér eru að bresta á áramót. Nýja árið byrjar 21. mars sem er fyrsti dagur vorsins. Nýja árið kemur sem sagt með vorinu. Og með tilheyrandi hátíðahöldum. Til að fagna nýja árinu þurfa Íranar tveggja vikna frí og allt er lokað í að minnsta kosti viku. Síðan ég kom hingað hef ég upplifað alls konar frídaga, aðallega trúarlega en Íranar eru duglegir að taka sér frí við minnsta tækifæri.

En nýja árið er stærsta hátíð ársins. Þess vegna er verslunar­æði í gangi núna, svipað og fyrir jólin heima. Og alls staðar kaos af fólki og mikil traffík. Fólk reynir í æsingi að finna sér ný föt og gjafir handa vinum og vandamönnum.

Það eru miklar hefðir í kringum öll hátíðarhöld í Íran. Í síðustu viku var til dæmis haldið upp á síðasta miðvikudag ársins. Það var reyndar gert á þriðjudagskvöld og þá breyttist Teheran í allsherjar partístað þar sem fólk kom saman og kveikti elda úti á götu til að stökkva yfir. Meðan ég keyrði í gegnum borgina á leið í partí sá ég lítil bál úti um allar götur. Eldurinn táknar nýja byrjun og meðan þeir stökkva yfir eldinn biðja Íranar um góða heilsu fyrir nýja árið.

Á þessu kvöldi er líka flugeldum og ýlum skotið á loft. Flugeldarnir voru reyndar hálfaumingjalegir en strákarnir bættu það upp með litlum sprengjum sem þeir köstuðu út um allt. Og svo var dansað frameftir nóttu.

Í næstu viku þegar nýja árið brestur á er siður að finna til sjö hluti sem byrja á s og setja á fallegt borð sem er látið standa óhreyft í viku. Síðan heimsækir fólk ættingja sína og er algengt að það ferðist til að heimsækja þá sem búa lengra í burtu. Þannig mun Teheran tæmast um áramótin sjálf, svipað eins og um verslunarmannahelgina heima. Þetta er mesta frí- og ferðavika ársins.

Ég ætla reyndar að vera í Teheran og sjá hvort það sé satt að þessi borg geti virkilega róast. Ég hef aldrei upplifað annað en kaos og læti úti á götu frá morgni til kvölds þannig að ég er mjög spennt að sjá hana leggjast í dvala. Teheran-búar fara nefnilega mjög snemma á fætur og það eru alltaf allir í fullu fjöri löngu áður en ég vakna. Einn daginn keyrði ég í gegnum borgina klukkan sjö um morgun og alls staðar var fólk úti á götu með ferskt brauð undir handleggnum.

Borgarbúar fara snemma á fætur vegna þess að hluti þeirra vaknar klukkan fimm á morgnana við fyrsta bænakall til að tala við guð. Það er líklega ágætis hugleiðsla og góð byrjun á deginum.

Gleðilegt nýtt ár!



hannabjork@gmail.com Fyrri pistla frá Íran má lesa á www.hannabjork.blogspot.com og á visir.is


Tengdar fréttir

Hanna Björk talar frá Teheran: Vegatálmar og vestræn viðhorf

Í Íran er föstudagur frídagur, eins og sunnudagur heima. Fimmtudagskvöld eru því partíkvöld hér í Teheran. Það tók mig smá tíma að venjast því að hér byrjar vinnuvikan á laugadegi sem er eins og hver annar mánudagur heima. Svona eru hlutirnir oft öfugsnúnir í Íran. Dagatalið er allt annað, hér er árið 1385, og persneska er skrifuð og lesin í öfuga átt, frá hægri til vinstri.

Hanna Björk talar frá Teheran: Diskóljós og “meiköpp” rassía í Íran

Sumarið er komið og moskítóflugurnar með. Næturnar fara nú í það að berjast við suðið í þeim í eyranu á mér og reyna að drepa þær áður en þær bíta mig. Sumarfiðringur er kominn í fólkið og flestir vilja bara vera úti að leika. Teheran hefur breytt um svip, trén urðu græn á einni viku, bleik blóm eru úti um allt og himininn fagurblár.

Hanna Björk talar frá Teheran: 67 km til Írak

Ég endaði dvöl mína hér í Teheran á að flýja stórborgina og eyddi síðustu helginni minni með nokkrum vinum í Suður-Íran í ríkasta héraðinu, nefnilega Khuzestan. Khuzestan er olíufylkið, flestir skýjagljúfrar í Teheran eru byggðir fyrir peninga sem koma þaðan. Samt sem áður er fólkið þar fátækt. Peningarnir fara allir til borgarinnar. Það eru flug á 20 mínútna fresti til Ahvaz og flugvélin var full af olíubransafólki.

Hanna Björk talar frá Teheran: Bíó og brjálæði!

Jæja, þá er ég komin frá Teheran til meginlands Evrópu. Ég fékk meira menningarsjokk við að lenda í Cannes heldur en í Teheran fyrir fjórum mánuðum. Cannes er mjög fallegur staður og ströndin og sólin lofuðu góðu. En svo fór ég á hátíðarsvæðið og geðveikin byrjaði. Fólk, fólk, fólk alls staðar. Höstl og læti.

Hanna Björk talar frá Teheran: Nætursöngur hermanna

Ég átti ekki von á því að geta haldið páskana hátíðlega í íslamska lýðveldinu Íran. En eins og um flest annað sem ég hafði gert mér í hugarlund áður um þetta land þá hafði ég rangt fyrir mér.

Hanna Björk talar frá Teheran: Á slóðum Alexander mikla

Ég gleymi stundum hvað Íran er ævafornt land, hvað menningin er rík og fáguð og hvað gamla Persía var mikið heimsveldi áður, þegar hún náði yfir öll Mið-Austurlönd, hluta af Afríku og alla leið til Indlands. 4000 ára saga þessa lands skiptist í mörg tímabil velmegunar og hnignunar, þrjú heimsveldi Persíu, konungsveldi og klerkaveldi.

Hanna Björk talar frá Teheran: Ný byrjun, nýr dagur í Íran

Vorið er komið í Teheran. Það kom með nýja árinu aðfaranótt miðvikudags klukkan þrjú nákvæmlega. Þá vöknuðu þeir Íranar sem höfðu ekki haldið sér vakandi og fögnuðu nýja árinu með því að kyssa fjölskyldumeðlimi og stökkva yfir þröskuld með hægri fæti áður en þeir fóru aftur að sofa. Á hverju ári breytist dagurinn og tímasetningin vegna þess að koma vorsins og nýja ársins er nákvæmlega reiknuð út eftir staðsetningu himintunglanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.