Lífið

Hanna Björk talar frá Teheran: Ný byrjun, nýr dagur í Íran

Hanna Björk Valsdóttir skrifar
Írönsk fjolskylda stillir sér upp við Sa'd Abad-höllina þar sem Mohammed Reza Pahlavi tók á móti gestum fyrir byltinguna.
Írönsk fjolskylda stillir sér upp við Sa'd Abad-höllina þar sem Mohammed Reza Pahlavi tók á móti gestum fyrir byltinguna.
Vorið er komið í Teheran. Það kom með nýja árinu aðfaranótt miðvikudags klukkan þrjú nákvæmlega. Þá vöknuðu þeir Íranar sem höfðu ekki haldið sér vakandi og fögnuðu nýja árinu með því að kyssa fjölskyldumeðlimi og stökkva yfir þröskuld með hægri fæti áður en þeir fóru aftur að sofa. Á hverju ári breytist dagurinn og tímasetningin vegna þess að koma vorsins og nýja ársins er nákvæmlega reiknuð út eftir staðsetningu himintunglanna.

Alla síðustu viku eru húsmæður búnar að hamast við að þrífa allt hátt og lágt, fægja silfur, dusta teppi, rífa niður gardínur og svo framvegis.

Nýja árið táknar nýja byrjun og nýjan dag og því þarf allt að vera tandurhreint. Einhvern veginn er lógískara að gera vorhreingerningu heldur en jólahreingerningu. Hátíð nýja ársins stendur yfir í 13 daga og á meðan stendur borðið í stofunni með hlutunum sjö sem byrja á S, eins og jólatréð stendur í stofunni hjá okkur Íslendingum. Það er ekki nóg að skella einhverjum hlutum á borðið, það þarf að vera fallegt og sýna fram á smekkvísi húsmóðurinnar.

Þessi hefð í kringum nýja árið er meira en 3.000 ára gömul og upprunnin í Zoroastrian trúnni sem landlæg var í Persíu áður en Arabar réðust inn í landið með íslam. Þessi trú á kannski meira skylt við goðafræði okkar Íslendinga. Heimurinn var skapaður í sjö stigum og þessi siður fagnar byrjun heimsins.

Á nýársdag er hefð að borða fisk og hrísgrjón í hádeginu. Kökur, íranskt konfekt og súkkulaði eru á öllum borðum og svo er farið í heimsókn til allra. Ég hef hálfpartinn verið ættleidd af fjölskyldu Golriz vinkonu minnar og er þess vegna alltaf drifin með í allar fjölskyldusamkomur og alls staðar taka Íranar mér með opnum örmum.

Meðan ég sat inn í stofu og virti fyrir mér fjölskylduna áttaði ég mig á því að þetta hefði getað verið hvaða fjölskylda sem er á Íslandi. Frænkur, frændur, systkinabörn, makar, börn, ömmur og afar, allir í sínu fínasta pússi. Það eina sem stakk mig gjörsamlega var þegar ég leit við og sá í sjónvarpinu sem var í gangi í bakgrunninum, George W. Bush Bandaríkjaforseta halda eina ræðuna enn um aðgerðir gegn Íran.

Hanna Björk Valsdóttir.
Það er hálfsorglegt að sitja í fjölskylduboði með fólki sem er alveg eins og ég sjálf, og hefur sömu lífsgæði og lífsstíl, og hlusta á voldugasta mann í heimi tala um aðgerðir gegn þeim. Íranar elska landið sitt og þrá ekkert heitar en að fá að lifa í friði. Íranar eru þreyttir á stjórnmálaástandinu í landinu og reyna að halda sínu striki og daglega lífi þrátt fyrir pólitískar þreifingar á alþjóðavettvangi. 

Fólk hefur oft áhuga á að vita hvað mér finnst um kjarnorkuframleiðslu Írana og afstöðu forsetans. Oft reyna þeir líka að útskýra að málið snýst aðeins um það að ofurveldi Bandaríkjanna fái ekki að stjórna Íran. Einn daginn þegar ég labbaði út í Park-e-Mellat garðinn í Teheran, sem minnir helst á Central Park á Manhattan, settist hjá mér ungur strákur og fór að spjalla. Háskólakrökkum finnst gaman að æfa enskuna. Þessi strákur var að læra stjórnmálafræði og hafði mikinn áhuga á að ræða þessi mál við mig. 

Hann útskýrði fyrir mér hversu ríkt land Íran væri. Náttúruauðlindir væru alls staðar. Olía, málmar, námur, blómlegur landbúnaður og allt til alls. Helsta vandamálið væri að ráðamenn Íran vissu ekki hvernig þeir ættu að nýta allar þessar auðlindir. Hann hafði séð heimildarmynd um orkunýtingu á Íslandi og var mjög spenntur. Íranar vita að olían á eftir klárast og þess vegna vilja þeir þróa aðra orkugjafa hvort sem þeir eru að gera það með réttum eða röngum aðferðum. 

Daginn eftir nýársdag borðaði ég hádegismat í höllinni. Sa'd Abad hallargarðurinn var sumardvalarstaður síðasta konungsins og þar tók hann á móti gestum. Persnesk fágun og lúxus einkenna hallirnar og lítið hefur breyst síðan Reza Shah Pahlavi flúði eftir byltinguna 1979, nema hvað að risa bronsstyttan af honum sem var við innganginn var brotin niður og núna standa bara stígvélin hans eftir. Það er lengi hægt að velta fyrir sér hver væri staða Íran í dag hefði byltingin ekki orðið. En meðan ég labbaði um flennistóran hallargarðinn sá ég Alborz-fjöllin skarta sínu fegursta við bláan himin og sólin skein. Vorið er svo sannarlega í loftinu í Teheran.

hannabjork@gmail.com

hannabjork.blogspot.com


Tengdar fréttir

Hanna Björk talar frá Teheran: Vegatálmar og vestræn viðhorf

Í Íran er föstudagur frídagur, eins og sunnudagur heima. Fimmtudagskvöld eru því partíkvöld hér í Teheran. Það tók mig smá tíma að venjast því að hér byrjar vinnuvikan á laugadegi sem er eins og hver annar mánudagur heima. Svona eru hlutirnir oft öfugsnúnir í Íran. Dagatalið er allt annað, hér er árið 1385, og persneska er skrifuð og lesin í öfuga átt, frá hægri til vinstri.

Hanna Björk talar frá Teheran: Diskóljós og “meiköpp” rassía í Íran

Sumarið er komið og moskítóflugurnar með. Næturnar fara nú í það að berjast við suðið í þeim í eyranu á mér og reyna að drepa þær áður en þær bíta mig. Sumarfiðringur er kominn í fólkið og flestir vilja bara vera úti að leika. Teheran hefur breytt um svip, trén urðu græn á einni viku, bleik blóm eru úti um allt og himininn fagurblár.

Hanna Björk talar frá Teheran: 67 km til Írak

Ég endaði dvöl mína hér í Teheran á að flýja stórborgina og eyddi síðustu helginni minni með nokkrum vinum í Suður-Íran í ríkasta héraðinu, nefnilega Khuzestan. Khuzestan er olíufylkið, flestir skýjagljúfrar í Teheran eru byggðir fyrir peninga sem koma þaðan. Samt sem áður er fólkið þar fátækt. Peningarnir fara allir til borgarinnar. Það eru flug á 20 mínútna fresti til Ahvaz og flugvélin var full af olíubransafólki.

Hanna Björk talar frá Teheran: Ananasgos, bananatyggjó og ís

Þegar maður dvelur í útlöndum í lengri tíma þá fer maður alltaf að sakna fáránlegra hluta frá Íslandi eins og til dæmis SS-pylsna og ópals. En mér finnst reyndar ennþá skemmtilegra að vera í útlöndum og smakka mat sem mér finnst skrítinn. Í Íran er mikil matarmenning og ég hef verið mjög dugleg við að smakka allan mat sem mér er boðinn og yfirleitt er hann mjög góður, þótt Íranar séu óþarflega mikið fyrir að hafa súrsað grænmeti sem meðlæti.

Hanna Björk talar frá Teheran: Bíó og brjálæði!

Jæja, þá er ég komin frá Teheran til meginlands Evrópu. Ég fékk meira menningarsjokk við að lenda í Cannes heldur en í Teheran fyrir fjórum mánuðum. Cannes er mjög fallegur staður og ströndin og sólin lofuðu góðu. En svo fór ég á hátíðarsvæðið og geðveikin byrjaði. Fólk, fólk, fólk alls staðar. Höstl og læti.

Hanna Björk talar frá Teheran: Nætursöngur hermanna

Ég átti ekki von á því að geta haldið páskana hátíðlega í íslamska lýðveldinu Íran. En eins og um flest annað sem ég hafði gert mér í hugarlund áður um þetta land þá hafði ég rangt fyrir mér.

Hanna Björk talar frá Teheran: Á slóðum Alexander mikla

Ég gleymi stundum hvað Íran er ævafornt land, hvað menningin er rík og fáguð og hvað gamla Persía var mikið heimsveldi áður, þegar hún náði yfir öll Mið-Austurlönd, hluta af Afríku og alla leið til Indlands. 4000 ára saga þessa lands skiptist í mörg tímabil velmegunar og hnignunar, þrjú heimsveldi Persíu, konungsveldi og klerkaveldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.