Lífið

Af skurðstofunni í Kauphöllina

Ingunn Wernersdóttir hefur einbeitt sér að listum og menningu í fjárfestingum sínum og er þessa dagana að leita að húsnæði undir listasafn. Á veggnum má sjá málverk eftir Baltasar Samper.
Ingunn Wernersdóttir hefur einbeitt sér að listum og menningu í fjárfestingum sínum og er þessa dagana að leita að húsnæði undir listasafn. Á veggnum má sjá málverk eftir Baltasar Samper.

Ingunn Wernersdóttir er fædd árið 1964, næstyngst fimm systkina og fékk smjörþefinn af viðskiptalífinu í heimreiðinni en faðir hennar er Werner Rasmusson, einn af mest áberandi karakterum atvinnulífsins hér á árum áður. Werner er lyfjafræðingur að mennt og starfaði hann á árum áður í ýmsum apótekum auk Pharmaco og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins í mörg ár og síðar stjórnarformaður.

Werner var einnig einn af stofnendum Delta en í dag eru þessi fyrirtæki sameinuð undir nafninu Actavis. Árið 1976 keypti hann svo Ingólfsapótek sem myndar nú ásamt fleiri apótekum fyrirtækið Lyf og heilsu. Systkinunum hefur gengið afar vel að fóta sig í viðskiptalífinu svo það liggur beinast við að ætla að viðskiptavit sé bundið í genamengi fjölskyldunnar.

„Það getur vel verið að þetta sé í blóðinu en við erum samt alin þannig upp systkinin að vinna hefur alltaf verið mikils metin. Okkur var innréttað það að vinna þurfi fyrir hlutunum og mikil áhersla var lögð á að standa sig í skólanum. Sem krakki bar ég út blöð og þegar pabbi keypti Ingólfsapótek er ég 12 ára gömul og 13 ára er ég farin að vinna við eitthvað smáræði hjá honum, fæ að hita kaffi og annað slíkt. Smám saman fer ég svo að afgreiða í apótekinu og sinna þeim störfum sem til féllu. Ég skúraði læknastofur sem hann átti, var ritarinn hans á tímabili og svona mætti lengi telja. Þá vann ég öll sumur og jól með náminu,“ segir Ingunn og jánkar þeirri hugmynd að það geti gert unglingum gott að vinna einhver störf á þessum mikilvægu mótunarárum.

„Ég hugsa að það geti oft verið svo að við foreldrar séum jafnvel að gera of mikið fyrir börnin okkar og það er kannski þeirra akkilesarhæll að við höfum ekki leyft þeim að spreyta sig meira. Svo má alltaf deila um það hversu langt skal ganga í slíku.“

Stór systkinahópur

Systkinamergð kallar á innbyrðis stimpingar en Ingunn segir að þegar á þurfti að halda hafi hópurinn staðið saman sem einn og ef einhver hafi gert eitthvað á hlut eins þeirra var þeim öllum að mæta.

„Það var mikið líf og fjör á heimilinu, en mamma var hörkudugleg og við systkinin erum fædd á níu árum en faðir minn vann mikið svo að uppeldið lá mest á herðum móður minnar.“ Móðir Ingunnar og systkinanna, Anna Kristjana Karlsdóttir, lést úr krabbameini árið 1994, þegar Ingunn var um 28 ára gömul en Werner og Anna höfðu þá verið gift í rúm 40 ár. Faðir Ingunnar hitti svo seinni konu sína, Kristínu Sigurðardóttur, fyrir nokkrum árum og Ingunn segir að það sé jafnvel meira að gera hjá föður sínum núna en áður en hann lét af störfum. Hann njóti lífsins með því að ferðast, spila golf og gera skemmtilega hluti.

„Ég ólst upp í Kópavogi frá þriggja mánaða aldri, gekk í Kópavogsskóla og síðar Menntaskólann í Kópavogi og hef líkt og margir Kópavogsbúar alltaf haldið mikilli tryggð við gamla bæjarfélagið mitt. Við systkinin erum öll útskrifuð frá Menntaskólanum í Kópavogi sem er svolítið skemmtilegt því ég held að það sé ekki algengt að einn skóli fái svona stóran systkinahóp á einu bretti. Á þessum tíma þekkti maður eða kannaðist við nánast alla í skólanum og margir af mínum bestu vinum í dag eru æskuvinirnir úr Kópavogi, en þetta var sterkur hópur. Þrjú af okkur systkinunum búa í dag í Kópavogi og ég er aðeins nokkrar mínútur í burtu, í Fossvoginum.“

Yfirgaf skurðstofuna fyrir tveimur árum

Ingunn segist hafa heillast af umönnunarstörfum þegar hún vann sem sumarstarfsmaður á Landakoti þegar hún var 18 ára og eftir að hafa prófað viðskiptafræði í Háskóla Íslands eina önn vatt hún kvæði sínu í kross og innritaði sig í hjúkrunarfræði. Þó hafði hún náð öllum prófum í viðskiptafræðinni og allt gengið að óskum hvað námið varðar.

„Viðskiptafræðin sem fag var einfaldlega ekki minn tebolli. Hjúkrun átti mjög vel við mig og útskrifaðist ég sem hjúkrunarfræðingur árið 1989 og fer að vinna á skurðstofu tveimur árum síðar. Árið 1995 fór ég svo í framhaldsnám í skurðhjúkrun en ég lagði hjúkrunarstarfið á hilluna nú fyrir um tveimur árum.“

Um árþúsundaskiptin 2000 flutti Ingunn norður á Akureyri, bjó þar í fimm ár og eftir dvölina þar tók við nýr kafli í lífi Ingunnar þegar hún hellti sér af fullum krafti út í vinnu á sviði fjárfestinga en þó hafði hún frá árinu 2002 verið eigandi að fyrirtæki ásamt bræðrum sínum, þeim Steingrími og Karli Wernerssynum, sem seinna fékk nafnið Milestone.

Milestone hefur gengið afar vel frá upphafi og Karl bróðir Ingunnar sagði í viðtali við Morgunblaðið á síðasta ári að stefna fyrirtækisins væri að fjárfesta í fyrirtækjum sem þau hefðu skilning á og gætu jafnframt haft áhrif á reksturinn í stað þess að veðja á markaðinn. Árið 2005 keypti fyrirtækið tvo þriðju hluta hlutafjár í Sjóvá og á síðasta ári áttu sér stað ein stærstu hlutabréfaviðskipti í sögu íslenskra hlutabréfaviðskipta þegar Straumur-Burðaráss fjárfestingarbanki seldi sinn hlut í Íslandsbanka til Milestone og fleiri fjáfesta, eða um 21%. Ingunn hefur þó fyrst og fremst einbeitt sér að rekstri fyrirtækis síns, Inn Fjárfesting, en það stofnaði hún á síðasta ári.

„Þeir bræður mínir og það frábæra starfsfólk sem vinnur hjá Milestone var að gera svo góða hluti að mér fannst ég litlu hafa við að bæta. Þeir eru mjög færir í viðskiptum og hafa þetta sjötta skilningarvit hvað viðskipti varðar. Ég ákvað því að leggja krafta mína í annað, mínar fjárfestingar og mýkri mál sem eru mér hugleikin og stofna því Inn Fárfestingu.“

Stradivaríus til handa öllum

Þau málefni sem Ingunn einbeitir sér að eru einkum tengd menningu og listum og sé tæpt á einhverju má nefna Sjónlistarverðlaunin sem Inn Fjárfesting er styrktaraðili að og á haustmánuðum ársins 2006 keypti fyrirtæki í eigu Ingunnar Stradivaríusfiðlu sem Hjörleifur Valsson fiðluleikari hefur til umráða. Einnig hefur Inn Fjárfesting sinnt góðgerðarmálum án þess að Ingunn vilji fara nánar út það.

„Fiðlan góða kom hingað til lands frá New York í gegnum franskan fiðlusmið sem býr þar. Hjörleifur og Ragnar Sær Ragnarsson, sem sá um að aðstoða hann við að fjármagna fiðluna fengu nafn mitt upp í hendurnar og við fórum að tala saman. Mér leist svo vel á Hjörleif og hans list að úr varð að ég keypti fiðluna. Mér fannst mikill heiður að fá að kaupa þetta magnaða hljóðfæri og gaman fyrir Íslendinga að eiga slíkan grip á Íslandi og geta notið tóna hennar, hljómarnir eru einfaldlega engu líkir. Eftir að ég ákvað að kaupa fiðluna hef ég svo kynnst Hjörleifi og fjölskyldu hans betur og þetta er yndislegt fólk.“

Ingunn segist helst ekki missa af þeim tónleikum sem Hjörleifur spilar á og einnig hefur hún mikið dálæti á þeim listakonum sem unnu Sjónlistarverðlaunin á síðasta ári, en Inn Fjárfesting gaf verðlaunaféð til myndlistar. Verðlaunin komu í hlut þeirra Hildar Bjarnadóttur á sviði myndlistar og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hlaut hönnunarverðlaunin. „Þær eru báðar að gera frábæra hluti og hafa fengið mikla og verðskuldaða athygli út á þessi verðlaun, bæði hér heima og erlendis. Og svo er ég að leita að húsnæði fyrir listasafn,“ segir Ingunn og brosir og segist fletta í gegnum fasteignablaðið á hverjum degi.

Til stóð að kaupa gamla hressingarhælið á Kópavogstúni, sem Hringskonur létu byggja árið 1923 eftir teikningu Guðjóns P. Samúelssonar. Ætlunin var að gera húsið upp á myndarlegan hátt og byggja við það, þó þannig að það héldi sínu upprunalega útliti sem mest og vera síðan með listaverkasýningar og ýmsa listviðburði þar fyrir almenning. „Auk þess var ætlunin að vera með höggmyndagarð á þessum stórkostlega stað sem Kópavogstún er.

Kópavogsbær og Inn Fjárfesting undirrituðu kaupsaming um fasteignina 9. júlí síðastliðinn þar sem við gerðum ýmsa fyrirvara um kaupin sem miðuðust svo aftur við ákveðnar tímasetningar. Útlitið var mjög bjart fyrir þetta verkefni til að byrja með en síðan leið tíminn án þess að samningsaðilar næðu saman um ákveðin atriði sem mér fannst skipta mjög miklu máli. Samningurinn féll því um sjálft sig þar sem fresturinn til að klára þessi atriði var útrunninn. Ég var ef til vill of stórhuga í þessu verkefni eða gekk of langt að mati sumra en þannig er ég, vil gera hlutina almennilega og myndarlega. Það er mikil eftirsjá í þessu húsi á Kópavogstúni.“

Æskuvinkonur í ákvörðunum

Hjúkrunarfræðingurinn með viðskiptavitið fær spurninguna hvort henni finnist hún vera algjörlega komin inn í þennan frumskóg efnahagslífsins og svar hennar er neitandi. „Þessi heimur er þannig í dag að þar er það hreinlega ekki á færi eins manns að vita allt.

Jafnvel þeir sem slyngir eru í viðskiptum, þurfa á einum eða öðrum tímapunkti að fá ráðleggingar frá sérfræðingum og það sama gildir um mig og sumt þurfti ég einfaldlega að setjast yfir og læra. Mér við hlið hef ég æskuvinkonu mína, Lindu Bentsdóttur, sem starfar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hún er lögfræðingur að mennt og löggiltur verðbréfamiðlari. Linda hefur mikla og góða þekkingu á viðskiptalífinu og hlutabréfamarkaðinum en við höfum það samt fyrir reglu að leita ráða sérfræðinga fáum við mál upp á borð til okkar sem okkur finnst við þurfa ráðlegginga með.“

Mörg verkefni koma inn á borð til Inn Fjárfestingar sem eru skoðuð og úr þeim valið og að sögn Ingunnar gefst oft ekki tími til að sinna spennandi hlutum því þeir komast hreinlega ekki inn í dagskrána. Athygli vekur þó að pólinn sem tekinn hefur verið í hæðina tengist mikið listum og ástríða Ingunnar fyrir myndlist og öðrum afkimum hins skapandi heims er mikil. „Ég hef alltaf haft mjög gaman af listum, menningu og fallegum hlutum, lærði á píanó í 9 ár í Tónlistarskóla Kópavogs, lengst af hjá Kristni Gestssyni. Áhugi á listum hefur svo verið að aukast jafnt og þétt með árunum. Eftir að ég hætti að vinna við hjúkrun gat ég svo farið að sameina þennan áhuga minn og starfið og þannig hefur þetta þróast í þessa átt. Mig fór að langa til að safna list og er rétt byrjuð á því enda er það æviverkefni. Ég ákvað að takmarka mig við eitthvað ákveðið enda listaheimurinn svo víðfemur.

Úr varð að ég einsetti mér að safna íslenskri eða Íslandstengdri samtímalist, það er að segja verkum frá því um 1970 og til dagsins í dag,“ segir Ingunn og viðurkennir að annars séu áhugamálin að finna í öllum krókum, kimum og skúffum tilverunnar.

Egypskt kattarkyn

Ingunn er kattarvinur og á þrjá undurfagra ketti af abyssinían- og sómalíukyni sem þykir einkar gáfað kyn og merkilegir karakterar. Hinn Íslands- ef ekki heimsfrægi köttur Muri sem tók nokkur spor í Bjarkarmyndbandinu hér um árið er einmitt af samskonar kyni. „Elsti kötturinn minn er einmitt frá Guðrúnu Lilju sem hlaut sjónlistarverðlaunin en á þeim tíma, árið 2000, bjó hún í Aðaldal og ræktaði þar ketti. Stuttu síðar hélt hún í nám til Hollands og hitti ég hana ekki aftur fyrr en við afhendingu sjónlistarverðlaunanna.

Svona getur þessi íslenska tilvera okkar verið lítil.“ Kettirnir eru miklar persónur að sögn Ingunnar og sá elsti stendur líklega í þeirri trú að hann sé mennskur rétt eins og húsráðendur. Á morgnana leggst hann yfir Moggann með henni og fylgir heimilisfólki í einu og öllu hvað athafnir varðar. Það er þó annar mikilvægari en kettirnir sem býr með Ingunni, en það er sonur hennar, Kristján Werner, sem stundar nú nám við Verslunarskóla Íslands.

„Við höfum verið ein síðan hann var tæplega fjögurra ára gamall og gengið í gegnum ýmislegt saman. Ég hef þó alltaf verið svo lánsöm að sjá hvernig hægt er að nýta sér erfiðleika á jákvæðan hátt en ég held að það skipti gífurlega miklu máli að hugsa jákvætt og það væri furðulegt ef manni gengi vel væri einungis neikvæðni til staðar.“ Og fyrst hugtakið neikvæðni var á annað borð dregin upp úr hattinum er Ingunn að lokum innt eftir því hvort henni finnist umræðan undanfarið hafa verið á neikvæðum nótum hvað varðar „nýríka“ fólkið í viðskiptalífinu. „Jú, síðustu mánuði hefur umræðan verið það en svo er líka misjafnt hversu vel fólk fer með það að eiga peninga.

Eitt er það þó sem oft vill gleymast, og það er að þeir sem eru ríkir sem og fyrirtækin sem þau standa fyrir borga líka gríðarlega skatta og tekjur ríkissjóðs eru af þeim sökum mun hærri en ella enda um gríðarlega fjármuni að ræða. Þegar uppi er staðið eru það því allir sem græða, það er að segja ef ríkisstjórnin fer rétt með fjármálin. Ég get því ekki annað séð en að Ísland og allir Íslendingar hafi hagnast á því að hafa hér á landi frambærilega menn sem hafa þetta sjötta skilningarvit hvað viðskipti varðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.