Erlent

26 þúsund milljarðar tapaðir vegna spillingar

Þriðjudagurinn síðasti var útnefndur baráttudagur til útrýmingar fátækt í Nígeríu. Útrýming spillingar er órjúfanlegur hluti af þeirri baráttu til að olíuauður landsins skili sér til allra þegna.
Þriðjudagurinn síðasti var útnefndur baráttudagur til útrýmingar fátækt í Nígeríu. Útrýming spillingar er órjúfanlegur hluti af þeirri baráttu til að olíuauður landsins skili sér til allra þegna. MYND/AP

Rannsóknarstofnun vegna spillingar í Nígeríu áætlar að 26 þúsund milljarðar af nígerísku almannafé hafi tapast síðan 1960 vegna spillingar stjórnmálamanna. Fénu hafi ýmist verið stolið eða sólundað. Nuhu Ribadu, framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir að níundi og tíundi áratugurinn hafi verið verstir en enn í dag lendir landið í efstu sætum lista yfir spilltustu lönd heims.

Síðast í gær lýsti forseti landsins yfir neyðarástandi í Ekiti-héraði eftir að upp komst að héraðsstjórinn þar hafði látið skattpeninga héraðsbúa renna beint inn á eigin bankareikning. Um það bil tveir þriðju allra héraðshöfðingja sætir rannsókn vegna gruns um spillingu.

Nígería er stærsti olíuframleiðandi í Afríku en hagnaðurinn af þeirri sölu skilar sér ekki til fátækari íbúa landsins.

Fréttastofa BBC reiknar út að á núvirði mætti fyrir 26 þúsund milljarða kaupa 225 geimskutlur, hátt í 800.000 Rolls Royce Phantom bifreiðar, - nú eða 3.800 kíló af hrísgrjónum fyrir hvern einn og einasta af tæplega 132 milljón íbúum Nígeríu eða 320 milljón skólastofur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×