Erlent

Mýkri friðargæsla

Ásýnd íslensku friðargæslunnar verður mýkt og lögð verður áhersla á borgaraleg svið í verkefnavali hennar. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra kynnti þessar hugmyndir á fundi utanríkismálanefndar í morgun.

Nokkur styrr hefur staðið um íslensku friðargæsluna á undanförnum misserum, meðal annars vegna vopnaburðar og þeirrar staðreyndar að konur hafa verið þar í miklum minnihluta. Á fundi utanríkismálanefndar kynnti Valgerður Sverrisdóttir áherslubreytingar á friðargæslunni á sviði löggæslu og réttarfars, flugmála og flugvallarstjórnunar, á vettvangi fjölmiðlunar og upplýsingamála og á heilbrigðisgæslu og heilbrigðismálasviðinu.

Fyrir liggur að fjölgað verði í friðargæslunni vegna þessa en endanlegur kostnaður við breytingarnar liggur ekki fyrir.

Að svo stöddu er ekki búist við að friðargæslan starfi á fleiri stöðum í heiminum heldur verður starfsemin efld á þeim svæðum þar sem hún er fyrir. Valgerður vonast ennfremur til að með þessum breytingum muni konum fjölga í íslensku friðargæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×