Erlent

Vopnahlé samþykkt í Balad í Írak

Heill salur af sjeikum samdi um hléið.
Heill salur af sjeikum samdi um hléið. MYND/AP

Héraðshöfðingjar í Balad-héraði, norður af Bagdad í Írak, féllust í gær á 20 daga vopnahlé í borginni sem hefur logað í átökum milli sjía og súnnímúslima. Röð hefndarárása milli sjía og súnnímúslima hafa kostað 95 manns lífið á fimm dögum í borginni Balad. Borgin er að mestu byggð sjíamúslimum en héraðið í kring tilheyrir súnnimúslimum.

Héraðsleiðtogar og fulltrúar beggja trúarbragðanna komust að samkomulagi í gær um 20 daga vopnahlé auk þess sem skipuð var nefnd sem mun reyna að finna langvarandi lausn á víxlhefndunum. Einnig var samþykkt að líkum hinna látnu verði skilað til ættingjanna. Meðal hlutverka nefndarinnar er að grennslast fyrir um afdrif 40 manna sem voru í 13 bíla bílalest sem var snúið af réttri leið á sunnudaginn.

Í gær var spennu þrungið andrúmsloft í Balad. Flestir skólar og skrifstofur voru lokuð og öðru hvoru mátti heyra skothríð. Bandaríski herinn skilaði stjórn svæðisins í hendur íraska hernum fyrir mánuði síðan, ekki síst til að geta beitt sér að meira afli að því að tryggja friðinn í höfuðborginni Bagdad. Reyndustu hermenn Írakshers náðu hins vegar ekki að að halda aftur af ofbeldinu og því þurftu bandarískir hermenn að skerast í leikinn í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×