Innlent

Þarf lítið til að gleðja

Félagar í Rótarýklúbbi Reykjavíkur héldu í dag til Afríku en þar ætla þeir að styrkja ýmis verkefni eins og bólusetningu og fræðslu barna.

Með í för eru meðal annars landlæknir, yfirmaður greiningadeildar Landsbankans og Dómkirkjuprestur. Rótarýklúbburinn hefur safnað saman peningum og fær styrk frá alþjóðlegum samtökum rótarý. Vonast þau til að geta útdeilt um sjö og hálfri milljón króna í styrki. Hjálmar Jónsson, prestur í Dómkirkjunni, er meðal þeirra sem fer í ferðina. Hann segir að reynt verði að finna verkefni til að styrkja í samvinnu við Rótarýhreyfingarnar í S-Afríku, Úganda og Malaví. Stefnt sé á að koma upp samskiptum milli þessara hreyfinga og hreyfinganna á Íslandi.

Hjálmar hefur farið í þó nokkrar ferðir til Afríku og hefur hann kynnst stöðum þar sem neyðin er mikil. Hann segir að oft þurfi lítið til að gleðja fólk þar. Hópurinn hafi til dæmis núna með sér 50 fótbolta sem geri skólabörnum kleift að spila knattspyrnu.

Hjálmar segir ferðir sem þessar kenna sér að líta öðrum augum á umhverfi sitt. Oft berist neikvæðar fréttir af efnahagslífinu hér heima og margir hafi miklar áhyggjur. Í Afríku hafi hann oft hitt fólk sem á nánast ekki neitt en sér samt ástæðu til þess að brosa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×