Innlent

Fjársöfnun hafin fyrir dómsmál gegn ríkinu

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera hefur hafið fjársöfnun vegna dómsmáls sem hópurinn rekur gegn Landsvirkjun og stjórnvöldum. Gjafsókn fæst ekki, en lagaákvæði um gjafsókn var breytt á meðan umsókn frá hópnum lá fyrir hjá gjafsóknarnefnd.

Á vorþingi árið 2005, eða um það leiti sem dómsmálið var í fullum undirbúningi, var felld niður heimild til gjafsóknar í málum þar sem einstaklingar vilja sækja rétt sinn gagnvart stórum fyrirtækjum eða stjórnvöldum. Hópurinn hafði lagt inn umsókn um gjafsókn og byggði umsókn sína á umræddu ákvæði en umsókninni var síðan hafnað. Hópurinn rekur nú mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en þess er krafist að mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu og úrskurður Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, verði felldur úr gildi. Hópurinn hefur hafið fjársöfnun fyrir málarekstrinum en fari málið til hæstaréttar þá gæti málskostnaður orðið allt að þrjár milljónir króna.

Katrín Theódórsdóttir, lögmaður hópsins segir að umhverfismál séu oft flókin og viðamikil og jafnframt kostnaðarsöm. Hún segir að lagabreyting um gjafsókn takmarki því möguleika einstaklinga til að höfða mál gegn ríkinu. Á sama hátt megi segja að stjórnvöld séu að greiða götu sína fyrir framkvæmdir sem þessar, þar sem ólíklegt er að einstaklingar leggi í málaferði gegn ríkinu eftir breytinguna á lagaákvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×