Innlent

Bensínreikningurinn hækkar um 30 þúsund

Bensínreikningur meðal bíleigandans hefur hækkað um þrjátíu þúsund krónur frá áramótum vegna verðhækkana á bensíni.

Meðal fjölskyldubíllinn eyðir um tvö þúsund lítrum af bensíni á ári hverju. Eftir síðustu verðhækkanir má gera ráð fyrir að það kosti á bilinu tvöhundruð og þrjátíu til tvöhundruð og sextíu þúsund krónur að kaupa bensín á bílinn yfir árið. Verðhækkanir frá áramótum nema um fimmtán krónum á lítrann og má því gera ráð fyrir að bensínreikningurinn hafi hækkað um þrjátíu þúsund krónur á ársgrundvelli.

Það fór ekki á milli mála á bensínstöðvum í dag að mörgum þótti nóg komið af verðhækkunum. Einn viðskiptavinur á bensínstöð spurði eftir aðgerðum stjórnvalda. Hann rifjaði upp að stjórnvöld hefðu gripið inn í þegar verðið fór yfir hundrað krónur fyrir nokkrum árum og velti fyrir sér hvort þau myndu næst gera eitthvað í málinu þegar það færi yfir tvö hundruð krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×