Innlent

Virkjanir hannaðar í Skaftártungu

Landsvirkjun hefur hafið hönnun nýrra virkjana í Skaftártungu og á hálendinu milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. Verkhönnun Skaftárveitu er þegar lokið en með henni verður vesturkvíslum Skaftár veitt í Langasjó. Orkufyrirtæki landsins standa skyndilega frammi fyrir því að þau anna ekki þeim óskum sem eru um kaup á raforku til álframleiðslu. Á ársfundi Landsvirkjunar í vikunni rakti Friðrik Sophusson forstjóri þá virkjanakosti sem fyrirtækið er með í undirbúningi. Þær virkjanir sem virðast næstar í framkvæmdaröðinni eru í neðri Þjórsá, við Núp og Urriðafoss, en umhverfismat vegna þeirra liggur þegar fyrir. Þeim er ætlað að mæta raforkuþörf vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Orkuþörf álsvers við Húsavík hyggst Landsvirkjun mæta með jarðgufuvirkjunum í Kröflu, Bjarnarflagi, Þeistareykjum og í Gjástykki og hefjast rannsóknarboranir vegna þeirra nú á vordögum. Til að mæta enn frekari óskum horfir Landsvirkjun nú helst til þess að beisla afl jökulfljóta sem eiga upptök sín í suðvestanverðum Vatnajökli sem og norðaustanverðum Mýrdalsjökli. Svokölluð Skaftárveita virðist þar lengst komin í undirbúningi en verkhönnun er lokið. Landsvirkjun telur þennan kost afar hagkvæman. Með Skaftárveitu er ætlunin að veita vesturkvíslum Skaftár yfir í Langasjó og þaðan yfir í Tungnaá en með þeim hætti myndi raforkuframleiðslu aukast í þeim virkjunum sem þegar eru starfandi í Þjórsá og Tungnaá. Neðar í Skaftá hefur Landsvirkjun lokið frumhönnun 140 megavatta Skaftárvirkjunar. Í Hólmsá í Skaftartungu er sömuleiðis lokið frumhönnun nýrrar virkjunar upp á 72 megavött en Rafmagnsveitur ríkisins, RARIK, er einnig aðili að undirbúningi þessara tveggja virkjana. Fjórði kosturinn á þessu svæði er virkjun í Tungnaá, ofan við Sigöldu og Krókslón, á móts við Vestur-Bjalla. Við blasir að átök gætu orðið um þessi áform, sérstaklega Skaftárveitu, en Landvernd hélt sérstaka ráðstefnu í fyrra um verndargildi Langasjávar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×