Innlent

Hyggja á sókn í sveitarstjórnum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna.
Markmið Vinstri-grænna í sveitarstjórnarkosningunum í maí er að stórefla Vinstrihreyfinguna - grænt framboð í sveitarstjórnum landsins segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins.

Vinstri-grænir víðs vegar af landinu söfnuðust í dag saman á frambjóðendaráðstefnu vegna komandi sveitarstjórnarkosninga og fóru yfir þær áherslur sem framboð flokksins um allt land hafa sameiginleg. "Við getum þar nefnt umhverfismálin þar sem sveitarfélögin hafa mjög mikið hlutverk," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna. "Við getum nefnt átökin um rekstrarform í velferðarþjónustunni. Það kemur að sjálfsögðu inn á allan hinn mikla rekstur sveitarfélaganna."

Niðurstöður síðustu sveitarstjórnarkosninga urðu Vinstri-grænum mikil vonbrigði, en er ástæða til að ætla að flokknum gangi betur í ár en fyrir fjórum árum?

"Við vorum í sumum tilfellum að stofna félög í sveitarfélögum um leið og við vorum að ganga frá framboðslistum, þannig að við vorum skammt á veg komin með að byggja okkur upp sem hreyfing," segir Steingrímur. "Við erum margfalt fjölmennari og öflugri í dag heldur en við vorum þá og ég held líka að sérstaða og hlutverk Vinstri-grænna sé orðið betur viðurkennt."

Búist er við að Vinstri-grænir bjóði fram V-lista undir eigin nafni í upp undir tíu sveitarfélögum og sameiginlega lista með öðrum í álíka mörgum sveitarfélögum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×