Innlent

Lögreglan hyggst leita eftir samstarfi vegna grófra árása

MYND/Páll

Ungur maður var stunginn með hnífi fyrir framan skemmtistaðinn Glaumbar við Tryggvagötu um hálf sexleytið í morgun. Hann var fluttur á slysadeild Landspítalans og liggur nú á gæsludeild en maðurinn hlaut fimm stungusár á baki og mjöðm. Að sögn vakthafandi læknis er maðurinn úr lífshættu og er líðan hans ágæt eftir atvikum. Þrír menn sem grunaðir eru um aðild að árásinni eru í haldi lögreglu en ekki liggur fyrir hvort fleiri en einn beittu eggvopni.

Þetta er önnur hnífsstungan í miðborg Reykjavíkur um helgina en í fyrrinótt var ungur maður stunginn tvisvar í bakið inni á skemmtistaðnum Gauki á Stöng sem einnig er við Tryggvagötu. Annað lunga hans féll saman en hann er úr lífshættu og segir læknir ástand hans gott miðað við aðstæður. Lögregla handtók í gær tvo menn í tengslum við þá árás og eru þeir enn í haldi. Líklega verður óskað eftir gæsluvarðhaldsúrskurði yfir öðrum þeirra í dag.

Að sögn Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns hefur gróft ofbeldi í líkingu við þessar tvær árásir aukist undanfarin ár, auk þess sem hnífaburður virðist hafa færst mjög í aukana. Lögreglan hyggst leita eftir samstarfi við rekstraraðila veitingastaða í borginni til að reyna að sporna betur við árásum sem þessum og lögregla komi þá til að mynda fyrr á vettvang. Bæði komi til greina að koma upp talstöðvarsambandi eða beintengdu símasambandi á milli lögreglu og dyravarða. Að sögn Geir Jóns stefnir lögreglan að því að koma á slíku samstarfi í tilraunaskyni við nokkra veitingastaði fyrir sumarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×