Innlent

Álver eykur ekki þenslu

MYND/Teitur

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, telur að álversframkvæmdir á Bakka við Húsavík rúmist vel innan efnahagskerfisins. Hann segir nauðsynlegt að horfa til framtíðar en það sé gert með þessum framkvæmdum.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út á Húsavík þegar tilkynnt var að bandaríska fyrirtækið Alcoa hefði valið Bakka við Húsavík fyrir byggingu hugsanlegs álvers á Norðurlandi. Áformin voru staðfest með undirritun samkomulags milli Alcoa og ríkisstjórnar Íslands um að kanna hagkvæmni þess að reisa þar 250 þúsund tonna álver.

Halldór Ásgrímsson segir allan undirbúning hafa verið vandaðan. Hann er ánægður með samkomulagið og telur ekki að álverið muni valda aukinni þenslu í hagkerfinu. Halldór segir klárt að rúm sé fyrir þessa framkvæmd. Engar tímasetningar hafi verið settar fram og menn megi ekki dæma út frá deginum í dag. Með samkomulaginu sé verið að hugsa til framtíðar en ljóst sé að fara verði í nýjar framkvæmdir í nánustu framtíð. Halldór segir að ef skynsamlega verið staðið að álverinu þá ætti að vera rúm fyrir það í hagkerfinu. Mikilvægt sé að öllum framkvæmdum sé dreift vel yfir ákveðið tímabil og svo vilji til að ef af verður þá sé stefnt á að byggja álverið upp í mörgum áföngum.

Framkvæmdir hefjast í fyrsta lagi árið 2010. Halldór segir álverið mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu en byggja þurfi upp atvinnulífið og það þurfi að taka þeim tækifærum sem bjóðast. Orkan sé auðlind Íslendinga og hana þurfi að nýta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×