Innlent

Dugir ekki að syngja fyrir hærri launum

Frá mótmælum slökkviliðsins.
Frá mótmælum slökkviliðsins. MYND/Gunnar V. Andrésson

Slökkviliðsmenn mættu í fullum herklæðum fyrir utan Borgartún 30 og mótmæltu harðlega ósveigjanleika stjórnvalda í samningaviðræðum en Launanefnd sveitarfélaga fundaði í Borgartúni í hádeginu. Þeir voru mættir með kröfuspjöld og sögðu að ekki myndi duga að syngja öskudagslög fyrir hærri launum. Á spjöldunum sem mennirnir báru var auglýst eftir starfsmanni sem þyrfti að þora að leggja sig í lífshættu, þyrfti að geta þolað líkamlegt erfiði og andlegt álag og að viðkomandi gæti lent í stórhættu í hreinsun á efnaúrgangi.

Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðsmanna var ekki bjartsýnn fyrir fund samninganefndar slökkviliðsmanna og ríkissáttasemjara í morgun og sagðist ekki hafa ástæðu til að ætla að samningar næðust í bráð. Fulltrúar launanefndar sveitarfélaganna viðurkenni að þeim finnist laun slökkviliðsmanna lág en segi ekkert við því að gera. Hann segir að ef ekkert komi út úr fundi launanefndar sveitarfélaganna núna, þá sé ljóst að þeir hafi ekki áhuga á að semja við slökkviliðsmenn.

Ari Hauksson, fyrsti fulltrúi starfsmanna slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, vonaði að ekki þyrfti að koma til verkfalls til þess að fólk gerði sér grein fyrir því hversu mikilvæg störf slökkviliðsmanna væru. Hann sagði slökkviliðsmenn stundum mæta þeim viðhorfum að þeir þyrftu ekki að fá svo mikið borgað af því þetta væri svo skemmtilegt og áhugavert starf. Þrátt fyrir að þeir sinni starfi sínu af áhuga þá séu þeir fyrst og fremst fagmenn og að starfið sé jafnerfitt og það er skemmtilegt og að því fylgi mikið andlegt og líkamlegt álag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×