Innlent

Sængurkvennadeildir fyllast

Fæðingardeildir Landspítalans gætu fyllst á nokkrum klukkustundum nú þegar ljósmæður taka ekki við nýjum fjölskyldum í heimaþjónustu í sængurlegu. Samningur ljósmæðra og Tryggingastofnunar rann út á miðnætti og konur sem hefðu átt að fara heim í dag þurfa því að dvelja áfram á sængurlegudeildum sjúkrahúsa. Á fundi í gær höfnuðu ljósmæður tilboði tryggingastofnunar enda segjast þær vera komnar langt undir útreiknaðan kostnað við vitjanir.

Á Hreiðrinu á Landsspítalanum liggja konur sem hafa fætt eðlilega og þær eru að öllu jöfnu útskrifaðar eftir einn til einn og hálfan sólarhring. Þær verða hins vegar ekki útskrifaðar svo fljótt meðan ekki fæst heimaþjónusta og þá er ljóst að plássin átta í Hreiðrinu verða fljót að fyllast, enda sjö til átta fæðingar að meðaltali á Landsspítalanum.

Rósa Bragadóttir deildarstjóri Hreiðursins segir fæðingar ganga í bylgjum og það hittist svo á að í dag er rólegt, aðeins þrjár konur lágu þar inni þegar NFS leit við í dag. Sú staða geti samt breyst á nokkrum klukkustundum ef margar konur koma inn í einu. Þá er augljóst mál að herbergin eru fljót að fyllast og þá verður þröngt á þingi.

Á sængurkvennadeild Landsspítalans eru nítján pláss en þar ganga fyrir konur sem fóru í keisaraskurð eða áttu á annan hátt erfiða fæðingu. Eftir keisaraskurði dagsins verða þar fjórtán konur og því lítið pláss til að taka við konum frá Hreiðrinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×