Innlent

Hátt í hundrað tonn af saltkjöti ofan í landann

MYND/Hilmar Þ. Guðmundsson

Búast má við að landinn láti ofan í sig hátt í hundrað tonn af saltkjöti í dag þegar hann fagnar sprengideginum. Þá eru ótaldar bauninar sem fylgja þessum þjóðarrétti Íslendinga á þessum degi.

Sprengidagur er þriðjudagur í sjöundu viku páska og í bókinni Sagar daganna segir að heimildir séu til um það að allt frá átjándu öld að honum hafi verið fagnað með miklu kjötáti og að slík matarveisla eigi sér rætur í kaþólskum sið. Lengi vel lögðu menn sér hangikjöt til munns á þessum degi en á síðari hluta 19. aldar hefur saltkjöt og baunir verið á boðstólum landsmanna fyrir upphaf föstunnar.

Rétturinn var víða á borðum í fyrirtækjum í hádeginu, en hjá Múlakaffi fengust þær upplýsingar að þar yrðu nærri þúsund skammtar af réttinum afgreiddir í dag, bæði í veitingasal og til fyrirtækja. Saltkjöt verður eflaust einnig víða á boðstólum á heimilum í kvöld en samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökunum má áætla um 300 grömm af kjötinu á mann þótt sumir leggi sér það ekki til munns. Aldrei er þó minna en 90 tonn af saltkjöti á markaðnum fyrir þennan dag.

Það var töluverð umferð í verslun Nóatúns þegar fréttastofu bar að garði laust fyrir hádegi og allir vildu það sama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×